Myrðið þrjá eða ég myrði sex – Fyrsta stikla úr Belko tilrauninni

Áður en leikstjórinn James Gunn byrjaði á Guardians of the Galaxy Vol. 2, sem kemur í bíó 28. apríl nk., þá framleiddi hann litla sjálfstæða mynd, sem hann skrifaði handrit að fyrir nokkrum árum síðan, sem heitir The Belko Experiment, eða Belko tilraunin, í lauslegri íslenskri þýðingu.

belko

Myndin er nú væntanleg á hvíta tjaldið 17. mars nk. og fyrsta stiklan er komin út. Um er að ræða svokallaða red band stiklu, eða bannaða stiklu. Myndin tekur vinnustaðaofbeldi upp á nýtt stig má segja, á afar hrollvekjandi hátt.

Belko er fyrirtæki sem ekki er rekið í hagnaðarskyni, og vinnur við að aðstoða fyrirtæki frá Suður Ameríku. Í byrjun stiklunnar eru allir í góðu skapi, léttir og kátir, en þá skyndilega gellur rödd úr hátalarakerfinu sem segir að starfsmennirnir verði að myrða þrjá samstarfsmenn sína, ellegar muni hinn dularfulli aðili á bakvið röddina myrða sex starfsmenn af handahófi.

belko-3

Í fyrstu halda starfsmennirnir að hér sé einhver að grínast og gera þeim grikk, en þau komast að því að svo er nú aldeilis ekki þegar höfuð eins af starfsmönnunum springur.

Þeir komast að því að þessi starfsmaður dó vegna sprengingar inni í höfði hans, sem rekja má til tölvuflögu sem grædd er í alla starfsmenn fyrirtækisins þegar þeir hefja störf hjá Belko.

Helstu leikarar eru John Gallagher Jr., Tony Goldwyn, John C. McGinley, Adria Arjona, Josh Brener og Michael Rooker (Guardians of the Galaxy).

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: