Jóhann gerir tónlistina í Arrival

jóhannVerðlaunatónskáldið Jóhann Jóhannsson semur tónlistina við nýjustu mynd Denis Villeneuve, Arrival, en þetta er þriðja samstarfsmynd Jóhanns og Villeneuve. Tónlistin kemur út hjá Deutsche Grammophon í nóvember, en þetta er önnur útgáfa Jóhanns hjá félaginu, eins og fram kemur í frétt frá Senu.

Fyrri plata Jóhanns sem hann gefur út hjá Deutsche Grammophon heitir Orphée og kemur út 16. september nk.

Villeneuve fékk Jóhann til liðs við sig við gerð spennumyndarinnar Sicario en Jóhann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina. Jóhann mun einnig semja tónlist fyrir framhaldsmynd Blade Runner sem einnig er leikstýrt af Villeneuve.

Amy Adams fer með aðalhlutverkið í Arrival en Jeremy Renner og Forest Whitaker eru í aukahlutverkum. Myndin fjallar um dularfull geimskip sem lenda víðsvegar um jörðina. Jarðarbúar setja saman teymi af fólki til að rannsaka hvað sé um að vera. Málvísindakonan Louise Banks er forsprakki hópsins sem þarf að etja kappi við tímann og finna svör við þeim ráðgátum sem fylgja geimskipunum á sama tíma og þjóðir jarðarinnar ramba á barmi heimstyrjaldar. Louise þarf að taka áhættu sem stofnar ekki aðeins hennar lífi í hættu heldur gjörvöllu mannkyninu.

„Arrival er mjög einstakur vísindaskáldskapur og ég ákvað mjög snemma í ferlinu að mannsröddin myndi verða miðpunkturinn í tónlist myndarinnar,“ segir Jóhann Jóhannsson um ferli tónsköpunar fyrir myndina, í frétt Senu. „Hún er mjög eðlilegur valkostur í sögu sem fjallar meira og minna um tungumál og samskipti.“

Jóhann segir að hann og Villeneuve eigi í traustu sambandi og að þeir vinni mjög mikið saman. Jóhann sendi nokkrar hugmyndir til hans eftir að hafa lesið samnefnda smásögu Ted Chiang en myndin er að einhverju leyti byggð á sögunni. Villeneuve valdi eitt þessara þema og hefur Jóhann unnið með það síðan þá.

„Ég heyrði fyrstu tónana rétt áður en við fórum í tökur,“ útskýrir Villeneuve. „Jóhann samdi dáleiðandi stef við augnablikið þegar aðalpersónan ber geimskipið augum í fyrsta sinn. Ég fylltist aðdáun þegar ég hlustaði á það. Stórfenglegt og hrífandi verk. Eins og tónlist af himnum ofan. Ég hlustaði á tónlist Jóhanns meðan ég tók myndina. Tónlistin hans hefur mikil áhrif á ferlið í heild sinni.“

Arrival kemur í bíó hér á Íslandi 11. nóvember nk.

Ljósmynd af Jóhanni hér að ofan: Jónatan Grétarsson

arrival plakat