Draugabanar náðu ekki toppsætinu

Miðað við áætlaðar miðasölutekjur í Bandaríkjunum fyrir helgina alla þá virðist nú sem nýja Ghostbusters myndin, eða Draugabanar, sem er með konum í öllum gömlu draugabanahlutverkunum úr fyrri myndunum, hafi ekki náð því að verða aðsóknarmesta mynd helgarinnar þar í landi.

ghostbusters

Myndin endar líklegast í öðru sæti yfir vinsælustu myndir helgarinnar þar vestra, á eftir teiknimyndinni vinsælu Secret Life of Pets, sem var einnig á toppnum í síðustu viku.

Draugabanarnir, sem leikstýrt er af Bridesmaids leikstjóranum Paul Feig, þénaði 46 milljónir Bandaríkjadala samkvæmt bráðabirgðatölum, en Secret Life of Pets 50,6 milljónir dala, en heildartekjur hennar eru nú komnar upp í 203,2 milljónir dala frá frumsýningu í Bandaríkjunum.

Kostnaður við gerð Ghostbusters var 144 milljónir dala, sem er þónokkuð há tala fyrir gamanmynd, og þó að myndin sé tekjuhæsta leikna gamanmynd á frumsýningarhelgi í meira en eitt ár í Bandaríkjunum, þá þarf hún að halda vel á spöðunum heima og utan Bandaríkjanna til að ná framleiðslu- og markaðskostnaðinum til baka.

Sony, framleiðslufyrirtæki myndarinnar, ætlar sér að gera fleiri Ghostbusters myndir í framhaldinu. „Það varða klárlega fleiri [myndir],“ sagði Josh Greenstein, markaðs og dreifingarstjóri Sony. „Þetta er endurræsing á einu af okkar stærstu vörumerkjum“.

The Legend of Tarzan var þriðja vinsælust og Mike and Dave need Wedding Dates var í fimmta sæti.

Finding Dory er áfram gríðarlega vinsæl í Bandaríkjunum og er nú orðin tekjuhæsta teiknimynd allra tíma í landinu með samtals 445,5 milljónir tala í tekjur. Hún er fjórða vinsælasta mynd helgarinnar.