Ferrell verður Pabbi skipstjóri

Will Ferrell hefur skrifað undir samning um að leika á móti Catherine Keener og Michael Cera í hinni gráglettnu gamanmynd Captain Dad, eða Pabbi skipstjóri, í lauslegri þýðingu.

will ferrell

Föðurhlutverkið virðist vera Ferrell hugleikið þessa dagana en ekki er langt síðan myndin Daddy´s Home var frumsýnd og búið er að ákveða að gera mynd númer tvö af þeirri mynd, Daddy´s Home 2 .

Sebastian Silva skrifar handrit og leikstýrir Captain Dad, en myndin fjallar um Rich Peelman, sem Ferrell leikur, sem ákveður að koma eiginkonu sinni Linda, sem Keener leikur, á óvart með hinni fullkomnu afmælisgjöf. Hann fær þá hugmynd að bjóða henni, sex börnum þeirra og mökum, í ferð um karabíska hafið á seglskútu. En Peelman, sem finnst hann alltaf hafa rétt fyrir sér, ofmetur rækilega hæfileika sína til að stjórna skipinu, og er fljótlega kominn í mikil vandræði.

Ferrell fáum við að sjá næst í veðmálagamanmyndinni The House, sem kemur í bíó 30. júní 2017. Keener leikur í  myndunum Unless og We Don’t Belong Here. Cera talar fyrir persónu í teiknimyndinni Sausage Party síðar í sumar, og talar einnig fyrir Robin í The Lego Batman Movie á næsta ári.