Abrams og Ridley saman yfir gröf og dauða

daisy ridleyYfirnáttúrulegir atburðir munu fljótlega verða til þess að þau Star Wars: The Force Awakens leikstjórinn J.J. Abrams og leikkonan Daisy Ridley úr sömu mynd, vinni saman á ný.

Varitety kvikmyndaritið segir frá því að Paramount framleiðslufyrirtækið hyggist gera „yfir gröf og dauða“- dramað Kolma, þar sem Abrams mun framleiða en Ridley að öllum líkindum leika aðalhlutverk.

Kolma er endurgerð á ísraelskri sjónvarpsmynd frá árinu 2003, Kol Ma, sem útleggst á ensku; All I´ve Got. Hún fjallar um mann sem dó í bílslysi fyrir 50 árum síðan og bíður hinum megin grafarinnar eftir kærustunni sem lifði slysið af. Þegar konan deyr, þá fær hún val um að snúa aftur til dagsins sem slysið varð og lifa upp á nýtt, eða að hitta ástmann sinn á ný í handanheimum.

Abrams bæði leikstýrði og var einn handritshöfunda Star Wars: The Force Awakens, en Ridley lék andspyrnumanninn Rey. Abrams hefur framleitt margar stórmyndir eins og nýju Star Trek myndirnar og síðustu Mission Impossible myndina.

Ridley leikur nú í Star Wars: Episode VIII.