Lost Boys leikari látinn

Brooke McCarter, sem var best þekktur fyrir að leika Paul í kvikmyndinni The Lost Boys, er látinn 52 ára að aldri. McCarter hafði glímt við lifrarsjúkdóm um allnokkurt skeið, samkvæmt tilkynningu frá fjölskyldu hans á Facebook.

lostboys2

„Brooke var ástkær sonur, bróðir, faðir, frændi og vinur,“ skrifar fjölskyldan. „Verið er að undirbúa útförina. Við kunnum að meta góðar kveðjur og hugsanir á þessum erfiða tíma.“

Auk þess að leika í þessari metsölumynd frá árinu 1987, þar sem hann lék á móti stórstjörnum eins og Corey Haim, Kiefer Sutherland, Corey Feldman og Jason Patric, þá lék hann í brettamyndinni Thrashin ásamt Tony Hawk, brettagoðsögninni, og hljómsveitinni Red Hot Chili Peppers.

McCarter dró sig út úr sviðsljósinu árið 1998 og flutti til Flórída þar sem hann sneri sér að fjarskiptum, að því er fram kemur í samtali við Horror.com.

Hann sneri aftur inn í heim hrollvekjunnar þegar hann tók að sér hlutverk í The Uh-oh Show árið 2009.