Blóðug jól

Margir horfa á hefðbundnu jólamyndirnar ár eftir ár; „Christmas Vacation“ (1989), „Love Actually“ (2003) og hina sígildu „It‘s A Wonderful Life“ (1946) svo dæmi séu tekin en hinn endinn á jólunum er ekki síðri; Sá hryllilegi.

Jól 1Sú besta (að mínu mati, skal tekið fram) er „Black Christmas“ (1974) eftir hinn sáluga Bob Clark. Ásamt því að búa til fantagóðan jólahroll lagði Clark línurnar fyrir „slægjur“ en nær óteljandi slíkar myndir prýddu bíóhús næsta áratuginn. „Black Christmas“ er einföld mynd; brjálæðingur hreiðrar um sig á annarri hæð í systrafélagi yfir jólatíðina og hver á fætur annarri falla þær í valinn. Stemningin er hreint mögnuð og snjórinn, kuldinn, jólaljósin og hátíðarlögin taka á sig óhuggulegan blæ eftir því sem líður á myndina.  Þessi er klassík og ómissandi yfir hátíðina, fyrir suma að minnsta kosti.

Jól 2Sveinki sjálfur fór að verða táknrænn fyrir hrylling þegar, árið 1980, tvær myndir kepptust við að sýna hann í öðru ljósi. „To All A Goodnight“ fylgdi leiðarvísi slægjunnar þegar óvættur í jólasveinabúning myrðir stráka og stelpur á subbulegan máta í fágunarskóla fyrir stelpur yfir jólahátíðina. Ef ekki væri fyrir algeran viðvaningsbrag í hverjum ramma myndi „To All A Goodnight“ sleppa fyrir horn sem skítsæmileg hryllingsmynd en því miður verður að flokka þessa sem hroða og einungis ætluð þeim sem verða að sjá allar hryllingsmyndir sem tengjast jólunum.

Jól 3Betur tókst til með „Christmas Evil“ sem fjallar um lánlaust meðaljón sem dreymir um að verða jólasveinninn og deila út gjöfum og refsingum um jólahátíðina. Ein jólin ákveður hann að gera einmitt það en refsingarnar eru í blóðugri kantinum og koma honum í vond mál á endanum. Lítið hryllilegt við þessa en hún er meinfyndin og lumar á góðri ádeilu um hve markaðsett jólin eru og sniðin að buddunni hjá almenningi. Þessi er fín svona þriðju hver jól.

Jól4Sú þekktasta er ef til vill „Silent Night, Deadly Night“ (1984) en ekki endilega sökum gæða. Sem hryllingsmynd sleppur hún fyrir horn og hefur að geyma nokkur eftirminnileg atriði; ekki síst atriði sem inniheldur uppstoppaðan dádýrahaus á vegg og berbrjósta konu. Aðalástæðan var þó alltaf veggspjaldið sem sýndi jólasvein klifra upp stromp með exi í hendi og línu sem gaf til kynna að hátíð ljóss og friðar væri tímabil til að óttast. Reiðir foreldrar mótmæltu í massavís og náðu að kippa myndinni úr bíóhúsum aðeins til að kynda undir áhugann þegar hún mætti á VHS og sló öll leigumet.

Jól 5Það má færa rök fyrir því að „Gremlins“ (1984) eigi heima í þessum hóp en illkvitnu afsprengin hans Gizmos nær kafsigla hinum friðsæla bæ Kingston Falls á eftirminnilegan hátt og herlegheitin gerast öll á jólunum. Það er alltaf stutt í grínið en ofbeldið er furðu gróft miðað við mynd sem var ekki bönnuð börnum og litlu grallararnir eru hreint svakalega illa innrættir og uppátækjasamir í banvænum hrekkjum sínum. Það er samt alltaf jafn fyndið að horfa á þá skemmta sér konunglega yfir Mjallhvíti og dvergunum sjö.

Jól 7Í seinni tíð virðist áhugi almennings á jólahrolli hafa farið dvínandi og fáar slíkar myndir náðu að vekja mikla athygli. „Silent Night, Deadly Night“ ól af sér fjögur framhöld sem náðu engan veginn að fylgja þeirri upprunanlegu eftir og titlar eins og „Santa Claws“ (1996) og „Santa‘s Slay“ (2005) hafa fallið í gleymskunnar dá. „Black Christmas“ var endurgerð árið 2006 og sú mynd lukkaðist ekki vel en betur tókst til með „Silent Night“ (2012). Sú mynd er mjög lausleg endurgerð á „Silent Night, Deadly Night“ og nær vel að samþætta yfirgengilegan subbuskap og hefðbundinn jólatrylli en þar einmitt er klikkaður Sveinki að refsa hinum óþekku á viðbjóðslegan hátt.

Jól 8Það er þó engu líkara en jólahrollurinn sé að snúa aftur með stæl. „Krampus“ er væntanleg í bíóhús fljótlega og mikils er vænst af henni. Á Blu-ray markaðnum hefur „A Christmas Horror Story“ vakið mikla athygli og fengið góða dóma en þar er smásagnarformið notað og eiga allar sögurnar það sameiginlegt að gerast á aðfangadag. Ef marka má sýnishornið þar er Sveinki meðal annars að berjast við andsetna álfa. Það hlýtur að vera spennandi að sjá.

Sýnishornið fyrir „A Christmas Horror Story“.