Passar postulínsdúkku

Dúkkur eru vinsælt efni í hrollvekjum, enda með eindæmum óþægilega hrollvekjandi fyrirbæri, séu þær matreiddar á réttan hátt með tilheyrandi tónlist.

Í dag birtist fyrsta stiklan úr nýjustu myndinni af þessari tegund, The Boy, eða Strákurinn, en hún fjallar um, eins og nafnið ber með sér, dúkkustrák sem vantar einhvern til að láta passa sig!!

the boy

Í myndinni, sem leikstýrt er af William Brent Bell, leikur Lauren Cohan barnfóstru sem kemst að því að starfið er ekki alveg eins og hún bjóst við að það yrði.

Sjáðu hrollvekjandi stikluna hér fyrir neðan:

Eins og sést í stiklunni þá er Greta, sem Lauren Cohan leikur, bandarísk kona sem flýr erfiða fortíð. Hún tekur að sér að passa 8 ára son auðugra foreldra á Englandi, á meðan hjónin fara í langt frí.

Þegar hún kemur að afviknu heimilinu þá kemst hún að því að eitthvað skrýtið er á seiði, og hreinlega óþægilega furðulegt! Það er ekki bara að hjónin láta Greta fá langan lista af leiðbeiningum með stráknum heldur er sonurinn Brahms, ekki raunverulegur strákur, heldur postulínsdúkka í fullri stærð!

Hjónin fara í fríið og Greta er nú ein og yfirgefin með Brahms. Í hvert skipti sem hún fer ekki eftir leiðbeiningunum gerist eitthvað skrýtið. Hún kynnist manni sem ber út nýlenduvörurnar til hennar, Malcolm, sem segir henni frá hræðilegum hlutum sem gerðust hjá Heelshire fjölskyldunni, og Greta kemst að því að hún var í raun ekki bara ráðin, heldur sérvalin til starfans …

Lauren Cohen er best þekkt fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum The Walking Dead. William Brent Bell er best þekktur fyrir myndina The Devil Inside.