Borðaði 500 kaloríur á dag

chris hemsworthAvengers og Thor leikarinn Chris Hemsworth borðaði einungis 500 hitaeiningar á dag á tímabili, vegna hlutverks í kvikmyndinni In the Heart of the Sea.

Samtals missti hann 7 kíló fyrir þetta hlutverk, en myndin er eftir Ron Howard og er byggð á sannsögulegum atburðum. Frumsýning verður 11. desember nk.

Þyngdartapið er reyndar lítið í samanburði við „meistarann“ í þessum efnum, Christian Bale, sem horaði sig niður um 27 kíló fyrir hlutverk sitt í The Machinist frá árinu 2004.

En þetta segir ekki alla söguna hvað Hemsworth varðar, því fyrir hlutverkið þar á undan, Michael Mann spennutryllinn Black Hat, hafði Hemsworth, líka tapað nokkrum af þeim kílóum sem hann hafði hlaðið á sig fyrir hlutverkið í Avengers.

„Þegar ég byrjaði, þá var ég grennri en þegar ég lék Thor, af því ég hafði verið í mynd Michael Mann,“ sagði leikarinn við Entertainment Weekly. „Þegar þú er grannur fyrir, þá er erfiðara að fara enn lengra. Hvert pund verður eins og kílógramm.“

Í myndinni leikur Hemsworth sjómann að nafni Owen Chase, sem ásamt öðrum úr áhöfn hvalveiðiskips, þarf að lifa af á pínulitlum björgunarbáti úti á ballarhafi, eftir að hvalur eyðileggur skipið þeirra.

Til að vera sannfærandi í hlutverki manns sem sveltur úti á sjó, þurftu leikararnir að grenna sig svo um munaði.

Þegar leikararnir færðu sig úr tökum í kvikmyndaverinu og í tökur úti á hafi, þá lifðu þeir á einungis 500 hitaeiningum á dag. Meðal hitaeininganeysla fyrir karlmann er um 2500 hitaeiningar á dag.

„Við urðum hálf geðveikir, og vigtuðum okkur daglega,“ sagði leikarinn.