Martröðin endur-endurræst

Tracking-Board.com segir frá því í nýrri frétt að kvikmyndafyrirtækið New Line Cinema sé með í undirbúningi nýja endurræsingu á hrollvekjuseríunni A Nightmare on Elm Street, eða Martröðin í Álmstræti.

freddie krueger

Leikstjóri upprunalegu myndarinnar var Wes Craven og í aðalhlutverkinu, hlutverki raðmorðingjans Freddie Krueger, var Robert Englund, en hann elti börn og lokkaði þau inn í hitakompu, áður en hann myrti þau.

Síðar finna bæjarbúar Krueger og brenna hann lifandi til að hefna fyrir dauða barnanna. Mörgum árum síðar snýr andi Freddie Krueger aftur til að hefna sín á bæjarbúum, með því að ofsækja unglinga í gegnum drauma þeirra og drepa þá einn af öðrum.

New Line Cinema endurræsti seríuna árið 2010 með Jackie Earle Haley sem Freddy Krueger ásamt mörgum ungum og efnilegum leikurum eins og Rooney Mara ( Pan), Kyle Gallner ( American Sniper ), Katie Cassidy ( Arrow ) og Kellan Lutz ( The Expendables 3 ).

Sú mynd féll ekki í kramið, hvorki hjá áhorfendum né gagnrýnendum, og fékk myndin einungis 15% á Rotten Tomatoes vefsíðunni.

Búið er að ráða handritshöfundinn David Leslie Johnson til að skrifa nýju myndina. Johnson er þekktur fyrir myndir eins og Orphan,  Wrath of the Titans og The Conjuring 2: The Enfield Poltergeist.