Er einkvæni eðlilegt? – Trainwreck frumsýnd 5. ágúst!

Gamanmyndin Trainwreck verður frumsýnd miðvikudaginn 5. ágúst. Myndin verður sýnd í Laugarásbíó, Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri.

Myndin er einnig forsýnd í kvöld í Laugarásbíói.

Film Review Trainwreck

Amy hefur staðið í þeirri trú síðan hún var lítil stúlka að einkvæni væri ekki eðlilegt. Hún lifir eftir því á fullorðinsárum og nýtur þess sem hún telur vera óheft frelsi, laust við skuldbindingar, leiðinlega rómantík og stífni en í raun og veru hjakkar hún svolítið í sama farinu. Þegar hún svo fellur fyrir heillandi íþróttalækni sem hún vinnur að grein um, veltir hún því fyrir sér hvort aðrir fullorðnir, þar með talinn maðurinn – sem virðist vera heillaður af henni, hafi kannski hitt naglann á höfuðið.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Aðalhlutverk: Amy Schumer, Bill Hader, Brie Larson, John Cena og
LeBron James

Leikstjórn: Judd Apatow

Fróðleiksmolar til gamans: 

– Amy Schumer er fædd í New York árið 1981 og ákvað snemma að gerast leikkona og handritshöfundur. Hún er með B.A.-gráðu í leikhúsfræðum frá Towson-háskólanum í Baltimore og stundaði eftir það nám í leiklist í William Esper-leiklistarskólanum
í New York. Eftir að hafa leikið í nokkrum leikritum sneri Amy sér að uppistandsgríni og
kom fyrst fram í Gotham Comedy Club þann 1. júní árið 2004. Hróður hennar sem uppistandsgrínara óx síðan verulega á næstu árum og um leið fór hún að landa hlutverkum í þekktum sjónvarpsþáttum eins og Reality Bites Back, 30 Rock, Curb Your Enthusiasm, Girls og Louie. Þetta leiddi til þess að hún fékk árið 2013 sinn eigin þátt á Comedy
Central-sjónvarpsstöðinni, en hann nefnist Inside Amy Schumer, og hefur notið mikilla vinsælda allt frá upphafi. Amy hefur á undanförnum fjórum árum hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir grínhandrit sín og gamanleik og var í apríl sl. gestgjafi á MTV-kvikmyndahátíðinni.

– Hermt er að Judd Apatov hafi haft frumkvæði að gerð þessarar myndar því eftir að hann heyrði Amy koma fram í útvarpsþætti Howards Stern hreifst hann svo mjög af húmor hennar að hann bauðst til að aðstoða hana við að búa til hennar fyrstu bíómynd, en Amy hafði þá þegar skrifað handritið að Trainwreck. Þetta er um leið í fyrsta sinn sem Apatov leikstýrir mynd sem hann hefur ekki skrifað handritið að sjálfur, en hann á að baki
myndir eins og The 40 Year-Old Virgin, Funny People, Knocked Up og This Is 40, auk þess sem hann framleiddi m.a. Bridesmaids, Get Him to the Greek, Step Brothers, Begin Again, Superbad og Anchorman-myndir Wills Ferrel.

– Margir þekktir leikarar koma fram í Trainwreck í aukahlutverkum og má þar nefna Tildu Swinton, sem leikur yfirmann Amyar, Daniel Radcliffe, Marisu Tomei, Randall Park, Ezra Miller og Matthew Broderick sem leikur sjálfan sig. Einnig koma fram og leika í myndinni nokkrir þekktir bandarískir íþróttamenn og fara þar fremstir í flokki þeir John Cena sem er núverandi meistari í bandarísku WWE-fjölbragðaglímunni og LeBron James, en hann þekkja allir sem fylgjast eitthvað með körfubolta. Þeir John og LeBron þykja standa sig ákaflega vel í hlutverkum sínum í Trainwreck.

– Sex af leikurum myndarinnar hafa verið fastráðnir í Bandaríska Saturday Night Life-skemmtiþættinum, en þetta eru þau Bill Hader, Vanessa Bayer, Pete Davidson, Leslie Jones, Tim Meadows og Colin Quinn.

– Sá sem leikur hinn aldna Norman í myndinni, Norman Lloyd, er sjálfur 100 ára (f. 8. nóvember 1914) og er sennilega eini eftirlifandi leikarinn sem hefur verið leikstýrt af þeim Charles Chaplin, Orson Welles og Alfred Hitchcock.

– Trainwreck hefur fengið afbragðsdóma margra gagnrýnenda og þykir handrit Amy Schumer einstaklega hnyttið, blátt áfram og beint í mark.