John Hurt með krabbamein

Hinn dáði breski leikari Sir John Hurt, hefur verið greindur með krabbamein í brisi, en segist vera bjartsýnn á að vinna bug á meininu og mun halda áfram störfum.

Hurt, sem er 75 ára, á farsælan leikferil að baki, m.a. leik í titilhlutverkinu í The Elephant Man og í Harry Potter myndunum.

Í yfirlýsingu sem gefin var út í dag sagði leikarinn: „Ég hef alltaf verið mjög opinskár varðandi það hvernig ég lifi mínu lífi og í ljósi þess vil ég gefa út yfirlýsingu.

„Ég var nýlega greindur með krabbamein í brisi á byrjunarstigi.  Ég gengst nú undir meðferð og er mjög vongóður um jákvæða niðurstöðu, sem og læknarnir.

john hurt

John Hurt í Sailcloth eftir Elvar Aðalsteinsson, en myndin komst á stuttlista fyrir tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Hurt hefur verið tilnefndur til tveggja Óskarsverðlauna, fyrir The Elephant Man og Midnight Express. 

Hann sló í gegn í vísindatryllinum Alien árið 1979, og var aðlaður árið 2014.

Undanfarna mánuði hefur Hurt átt annríkt við leik í myndinni The History of Love með Gemma Arterton og Sir Derek Jacobi, og í nýju  Tarzan myndinni þar sem hann leikur á móti Samuel L Jackson og Margot Robbie.