130 kílóa Cruise?

Bandaríski kvikmyndaleikarinn Tom Cruise, sem alla jafna er í hörkuformi, myndi þurfa að bæta verulega á sig ef hann tæki að sér að leika 130 kílóa bandarískan flugmann sem flutti eiturlyf og vopn fyrir Medellín eiturlyfjahringinn, í hinni ævisögulegu bíómynd Mena, sem á að gerast á níunda áratug síðustu aldar.

tom cruise grossman

Cruise, sem er 52 ára gamall, sést næst á hvíta tjaldinu í fimmtu Mission: Impossible myndinni.

The New York Post hefur eftir heimildum að Cruise muni leika Adler B Seal, sem þekktur er sem Barry, í hinni ævisögulegu Mena, sem Bourne Identity leikstjórinn Doug Liman mun gera.

Cruise hefur áður verið feitur á hvíta tjaldinu. Hann klæddist eftirminnilega fitubollubúningi þegar hann lék hinn sérvitra kvikmyndaframleiðanda Len Grossman í gamanmyndinni Tropic Thunder frá árinu 2008.

Líkamsbreytingar leikara fyrir hlutverk, hvort sem er að grenna sig gríðarlega, eða bæta á sig fjölda kílóa, hefur hingað til verið vinsælt þegar kemur að tilnefningum til Óskarsverðlauna, en Cruise hefur einmitt þrisvar verið tilnefndur til slíkra verðlauna, en aldrei fengið.

Seal hefur áður verið túlkaður í bíómynd. Í sjónvarpsmyndinni Double Crossed frá árinu 1991, var það Dennis Hopper sem lék flugmanninn, en fitaði sig ekki fyrir hlutverkið, heldur lék hann í eðlilegum holdum.

Seal, sem gekk undir viðurnefninu „Feiti maðurinn“, var flugmaður fyrir Medellín eiturlyfjahringinn, og síðar fulltrúi leyniþjónustunnar, CIA. Seal flutti fíkniefni og vopn í gegnum skuggalegan flugvöll í Mena í Arkansas, frá Suður – Ameríku, á árunum 1976 – 1984, en það ár var hann handtekinn.

Til að komast hjá fangelsisvist þá féllst hann á að vinna með yfirvöldum, en var skotinn til bana í fylgsni sínu í Baton Rouge í Louisiana árið 1986 af kólumbískum leigumorðingjum sem unnu fyrir Medellín.

Liman og Cruise áttu bókaðan fund til að ræða hlutverkið, samkvæmt New York Post. Mena er byggð á eftirsóttu handriti Gary Spinelli, sem selt var á 1 milljón Bandaríkjadala. Upphaflega ætlaði Ron Howard að leikstýra, en Liman hefur nú tekið við keflinu.