Safngripir lifna við á ný

Sena frumsýnir á morgun ævintýramyndina Night at the Museum: Secret of the Tomb, í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri.

Night at the Museum-myndirnar hafa notið mikilla vinsælda fólks á öllum aldri, en fyrsta myndin var gerð árið 2006 og sló í gegn. Myndirnar fjalla um Larry Daley (Ben Stiller) sem fékk starf sem næturvörður á sögu- og náttúrusafni. Í starfinu komst hann svo að því að bæði dýr og persónur sem voru til sýnis á safninu lifnuðu við á næturnar svo úr varð bráðskemmtilegt ævintýri.

ben stiller

Ben Stiller og allt gengið mætir aftur til leiks í þessari nýju mynd, en í þetta sinn uppgötvar Larry að töfrarnir sem hafa valdið því að persónurnar og dýrin lifnuðu við á næturnar eru að eyðast og hverfa og að mjög takmarkaður tími er til stefnu. Larry reynir að bjarga málunum, en til þess þarf hann að ferðast ásamt nokkrum félögum úr safninu til London. Ferðalagið reynist vera viðburðaríkt, fyndið og skemmtilegt en líka hættulegt á köflum. Í öðrum stórum hlutverkum eru m.a. þau Robin Williams, Owen Wilson, Ben Kingsley, Dick Van Dyke, Rebel Wilson, Steve Coogan, Mickey Rooney og Ricky Gervais.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Fróðleiksmolar til gamans:

– Leikstjóri Night at the Museum: Secret of the Tomb er Shawn Levy sem gerði einnig fyrri myndirnar tvær og á auk þess að baki myndir eins og Real Steel, The Internship og This Is Where I Leave You sem var einmitt frumsýnd í bíó hér á landi núna í nóvember.

– Night at the Museum: Secret of the Tomb er næstsíðasta myndin sem við fáum að sjá Robin Williams í, en hann lést eins og flestir vita í ágúst síðastliðnum. Enn á eftir að frumsýna myndina Absolutely Anything, en þar talaði Williams fyrir eina aðalpersónuna.