Íslenskar stuttmyndir í brennidepli

Fimm íslenskar stuttmyndir voru sýndar fyrir fullum sal í Tjarnarbíó á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík í kvöld. Alls verða 20 innlendar stuttmyndir sýndar á hátíðinni í þremur lotum. Athygli vakti að kvenkyns leikstjórar voru í meirihluta og var alls þremur myndum af fimm leikstýrt af konum í fyrstu lotu.

anna

Fyrsta myndin sem sýnd var ber heitið Anna. Helga Björg Gylfadóttir leikstýrir myndinni sem er lauslega byggð á skáldsögunni Anna Karenina eftir rússnenska höfundinn Leo Tolstoj. Í myndinni er sagt frá Önnu sem stendur á krossgötum, en hún þarf að að velja á milli eiginkonu sinnar og viðhaldsins.

Þrátt fyrir að fylgjast með Önnu í gegnum alla myndina þá áttar maður sig ekki alveg á löngun hennar og þ.a.l. virðast ákvarðanir hennar vera gripnar úr lausu lofti. Myndin á það til að staldra við of lengi við í senum sem mætti stytta. Frammistaða leikara er stirð á köflum. Aðalleikonan Lilja Birgisdóttir leysir hlutverk sitt þó prýðilega þrátt fyrir að persónan sé nokkuð týnd. Klipping myndarinnar heppnast stundum ekki og missir oft takt. Myndin hefði mátt vera snarpari og sýna okkur betur inn í hugarheim aðalpersónunnar.

maler-stor

Önnur myndin sem sýnd var er hin umtalaða og verðlaunaða mynd, Málari. Myndin er útskriftarverkefni Hlyns Pálmasonar úr danska kvikmyndaskólanum. Myndin fjallar um vinsælan myndlistarmann sem lifir mjög einangruðu lífi. Myndverkin eru hans drifkraftur í lífinu og hann veit ekki hvernig hann á að taka á því þegar sonur hans kemur óvænt í heimsókn. Skyndilega er hann í miðjunni á óreiðukenndu ástandi, sem setur bæði hann og verk hans úr jafnvægi.

Myndin er fyrst og fremst ótrúlega vel leikin. Ingvar E. Sigurðsson fer á kostum í hlutverki sínu sem málarinn og taumlausi faðirinn. Sagan er sett fram af mikilli yfirvegun og togstreitan á milli feðganna er skiljanleg þótt maður þekki ekki alla söguna á bakvið. Kómedían er aldrei langt undan þó um sé að ræða dramatíska mynd. Andrúmsloftið er alltaf rafmagnað og endirinn er fullnægjandi fyrir áhorfandann.

ef

Þriðja myndin, Ef, eftir Þóru Tómasdóttur var eina óleikna mynd kvöldsins. Þar er spurningunni um efann kastað fram og spýta listamenn út úr sér vangaveltum um sjálfsöryggi og efasemdir af miklum móð.

Uppsetningin á myndinni er gríðarlega hrá. Myndavélinni er beint að viðmælanda sem fær að tala frjálst um sínar efasemdir og tilfinningar. Þóra lýsir myndinni sem „trúnó“ og á það vel við því hugleiðingar viðmælandanna eru mjög opinskáar. Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri fer t.d. yfir það þegar hann reyndi að fremja sjálfsvíg sem unglingur vegna þess að honum þótti hann einfaldlega vera mistök. Að kafa svona djúpt inn í hugarheim og vangaveltur viðmælanda er mjög áhugavert. Leikstjóri nær sínu markmiði þó það mætti deila um myndræna útfærslu fram og til baka.

Fjórða myndin sem sýnd var er útskriftarverkefni Loga Ingimarssonar úr Kvikmyndaskóla Íslands og ber heitið Limbó. Myndin er ádeila á þann stafræna heim sem við lifum í. Aðalpersónan er fangi netheima. Raftæki eiga hug hans allan, en allt í einu byrjar hann að heyra dularfull hljóð.

Myndin er draumkennd, en samt ekki. Hún hefði mátt fara alla leið í aðra hvora áttina eða aðskilja hlutina betur. Myndinni er ýtt í mismunandi áttir og maður áttar sig ekki alveg hvert sagan er að leiða mann. Leikstjóri hefði mátt taka sér Wachowski-systkinin (The Matrix, Cloud Atlas) til fyrirmyndar áður en hann gerði þessa mynd. Áhorfandinn veit alltaf hvar Neo er. Í þessari mynd veistu ekki hvar aðalpersónan er og þ.a.l. verður hún fjarlæg.

Síðasta myndin, Rauð stríðsmálning, en þó alls ekki sú sísta sem sýnd var er leikstýrð og skrifuð af hinni suður-kóresku Jay Choi. Ásamt henni skrifaði Eva Sigurðardóttir handritið. Myndin fjallar um tvær vinkonur sem ætla út á lífið. Til að bæta sjálfstraust vinkonu sinnar tekur Amelía hana í gegn áður en þær halda út. Góðar fyrirætlanir Amelíu snúast í höndunum á henni þegar vinkona hennar fær meiri athygli frá hinu kyninu. Hún læsir sig inni á salerni móðguð og miður sín og býr sig undir stríð.

Þessi mynd er einstaklega vel útfærð. Kvikmyndataka og litbragð er til fyrirmyndar. Myndin fjallar í sjálfu sér um liti. Rauður varalitur, ljóst hár. Spurningunni um hvort maður breytist með öðruvísi ásýnd er kastað fram. Vinskapurinn er í hættu vegna athygli vinkonunnar sem er allt í einu orðin sjálfsörugg og djörf og fær þar af leiðandi athygli karlpeningsins. Maður finnur til með þeirri vinkonu sem er útskúfuð og vonar að vináttan fari ekki í sandinn. Góð mynd í alla staði.