Aniston í klóm mannræningja – Frumsýning

Spennumyndin Life of Crime, með Jennifer Aniston í aðalhlutverki verður frumsýnd föstudaginn 5. september. Myndin verður sýnd í Laugarásbíói, Bíó Paradís og Borgarbíói Akureyri.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Ordell Robbie (Mos Def) og Louis Gara (John Hawkes) eru smáþrjótar sem fá þá hugmynd að ræna konu að nafni Mickey (Jennifer Aniston), sem er gift moldríkum viðskiptajarfa (Tim Robbins). Markmiðið er að kúga út úr honum milljón dollara úr sérstökum leynisjóði hans og í ljósi þess að peningarnir eru ekki löglegir getur eiginmaðurinn ekki hringt á lögguna. Það sem krimmarnir gerðu hins vegar ekki ráð fyrir er að hann á sér viðhald (Isla Fisher) og ákveður síðan að hann langi bara ekkert aftur í eiginkonu sína, sem setur þá Ordell og Louis í býsna vonda stöðu…

jennifer aniston

Leikstjóri myndarinnar er Daniel Schechter og aldurstakmark er 12 ára.

Í Myndum mánaðarins eru þessir punktar birtir um myndina:

„Life of Crime þykir ákaflega skemmtileg mynd og til dæmis gaf gagnrýnandi The Guardian henni fjórar stjörnur í dómi sínum.“

„Myndin er byggð á skáldsögunni The Switch eftir Elmore Leonard en fjölmargar góðar og þekktar myndir hafa verið gerðar eftir bókum hans í gegnum árin og má þar nefna t.d. Jackie Brown, Get Shorty, Be Cool, Killshot og Out of Sight. Ef þér líkaði við einhverja af þessum myndum þá muntu nokkuð örugglega kunna að meta Life of Crime.“