Ron Howard gerir heimildarmynd um Bítlana

Óskarsverðlaunaleikstjórinn Ron Howard mun leikstýra nýrri heimildarmynd um tónleikaferðalög Bítlana. Eftirlifandi meðlimirnir Sir Paul McCartney og Ringo Starr munu m.a. aðstoða hann við að afla sér heimilda.

beatles-shea-02

Eins og fyrr segir þá ætlar Howard að einbeita sér að tónleikum og tónleikaferðalögum hljómsveitarinnar, en þeir hættu að spila á tónleikum árið 1966. Framleiðslufyrirtækið Apple Corps Ltd, mun framleiða myndina ásamt White Horse Pictures og Imagine Entertainment.

„Ég er bæði spenntur og heiðraður að fá að vinna með Apple og White Horse um þessa fjóra menn sem sigruðu heiminn árið 1964,“ sagði Howard á fjölmiðlafundi fyrir skömmu. Hljómsveitin er í hópi þeirra vinsælustu sem uppi hafa verið og samanstóð af Ringo Starr, George Harrison, John Lennon og Paul McCartney.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Howard gerir heimildarmynd um tónlistarmenn, en hann leikstýrði mynd um rapparann Jay Z, sem ber nafnið Made in America, en hún kom út á síðasta ári.