Fyrsta stikla úr Jimi: All Is by My Side

jimiFyrsta stiklan fyrir tónlistarmyndina ævisögulegu; Jimi: All Is by My Side, með Andre Benjamin, leikara og liðsmanni hljómsveitarinnar Outkast, í titilhlutverkinu, hlutverki gítarhetjunnar og söngvarans Jimi Hendrix, er komin út.

Myndin verður frumsýnd þann 26. september nk.

Leikstjóri er Óskarsverðlaunahandritshöfundurinn John Ridley, sem fékk Óskarinn fyrir handrit sitt að 12 Years a Slave fyrr á þessu ári.  Hann skrifaði einnig handritið.

„Viltu að hlutirnir breytist?“ spyr Benjamin í hlutverki Jimi í stiklunni. „Þá þarf kraftur ástarinnar að taka við af ástinni á valdinu – þá breytast hlutirnir.“

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan:

“All Is by My Side” var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto síðasta haust.

Myndin varð til eftir að Ridley uppgötvaði lag Hendrix, „Sending My Love to Linda,“ sem fjallaði um fyrirsætuna Linda Keith, sem hlustaði á Hendrix á tónleikum í London árið 1966, og lék lykilhlutverk í að hvetja hann áfram á framabrautinni.

Til gamans má geta þess að til að gera persónuna trúverðugri í myndinni þá lærði Benjamin að spila á gítar eins og Hendrix gerði – en hann var örvhentur en lék á venjulegan gítar fyrir rétthenta, með strengina í öfugri röð.

Kíktu einnig á atriði úr myndinni sem við birtum fyrr á árinu.