Shia LaBeouf handtekinn í New York

Leikarinn Shia LaBeouf hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið, en hann var handtekinn eftir að hafa kveikt sér í sígarettu og hrópað ýmsum blótsyrðum á Broadway-leiksýningunni, Cabaret, í New York fyrir nokkrum dögum.

shial

Samkvæmt Variety var lögreglan kölluð til eftir að LaBeouf hunsaði öryggisverði leikhússins, sem báðu hann um að að yfirgefa salinn. Lögreglan í New York hefur gefið út yfirlýssingu þar sem LaBeouf er sagður hafa verið mjög dónalegur við sýningargesti og öryggisverði.

Einn sýningargestanna, Benj Pasek, staðhæfir að LaBeouf hafi verið grátandi er lögreglan fylgdi honum úr salnum.

LaBeouf hefur verið mikið á milli tannanna á fólki undanfarið og halda sumir því fram að hann sé á barmi taugaáfalls. Frægt er orðið þegar LaBeouf mætti á rauða dregilinn með poka yfir hausnum sem á stóð „Ég er ekki frægur lengur“.

LaBeouf sést næst í stríðsmyndinni, Fury, sem skartar einnig Brad Pitt í aðalhlutverki.