Lögga breytist í úlf – stikla!

Ný mynd í flokki bíómynda sem má kalla furðutrylla, er væntanleg í bíó og sú er svo sannarlega áhugaverð ef eitthvað mark er takandi á stiklunni sem komin er út.  Það má segja að myndin fari í flokk með myndum eins og Sharknado um fljúgandi mannætuhákarla, og myndum um drápshjólbarða og þvottabirni sem þvælast stjörnukerfa á milli. 

wolf

Þessi nýja mynd heitir WolfCop og er eins og nafnið ber með sér um löggu sem breytist í úlf.  Frekari upplýsingar um myndina er að finna á heimasíðunni Wolfcop.com.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Söguþráðurinn er eftirfarandi: „Það er ekki óvanalegt fyrir drykkfelldu lögguna Lou Garou að vakna á óþekktum stað og muna ekkert eftir gærdeginum vegna drykkjuskapar. En upp á síðkastið hefur eitthvað nýtt verið að gerast. Honum finnst vettvangur glæpa líta frekar kunnuglega út. Lou er orðinn ofurnæmur, og þegar það er fullt tungl, þá breytist hann í ofsareiðan varúlf. Myndin fjallar um mann sem vill verða að betri manni … í nokkurra þrepa breytingaferli.“

wolfcop

Myndin verður frumsýnd í Kanada 6. júní nk. Íbúar annarra landa verða að sýna þolinmæði því ekki er von á myndinni utan Kanada fyrr en í september nk.