Þýskir kvikmyndadagar á næsta leiti

Þýskir kvikmyndadagar hefjast fimmtudaginn 13. mars í Bíó Paradís með tilheyrandi opnunarhátíð. Myndirnar spanna breitt svið, enda mjög fjölbreyttar og veita innsýn á ólíkan hátt í Þýskaland dagsins í dag.

Opnunarmyndin Zwei Leben var framlag þjóðverja til Óskarsverðlaunanna og fjallar hún um sannsögulega atburði eftir síðari heimstyrjöld og hvernig ævi eftirstríðsbarna mótast af foreldrunum og samskiptum norskra kvenna við þýska hermenn. Þetta er þekkt leiðarstef í allri Evrópu og tekur framvinda myndarinnar á grípandi hátt á örlagaríkri sögu þessara kvenna um leið og flett er ofan af ýmsum leyndarmálum aðalsöguhetjanna.

h542

Katrin Gebbe er svo ungur og upprennandi höfundur sem teflir fram myndinni Tore Tanzt eða Nothing Bad Can happen. Hún fjallar um jesúpönkara sem lendir í klóm á harðskeittum fjölskylduföður sem lifir á hjólahýsasvæði, þar sem hann stjórnar fjölskyldunni af hörku.

Síðast en ekki síst verður kvikmyndin Wetlands sýnd, en hún sló í gegn á nýliðinni Sundance hátíð en hún er svokölluð kvikmyndaaðlögun frá bókinni Votlendi.