Liam Neeson í 40 þúsund feta hæð

Hálfgert Liam Neeson-æði hefur gripið landann allt frá því að spennumyndin Taken kom út árið 2008. Það eru fáir sem hafa slæmt álit á leikaranum og fyllist fólk oft af spenningi þegar Neeson er væntanlegur í kvikmyndahús á ný.

Spennumyndin Non-Stop verður frumsýnd á Íslandi á föstudaginn næstkomandi og munu eflaust margir gera sér ferð til þess að sjá hvað Neeson hefur upp á að bjóða í þetta í sinn.

neeson

Myndin er nýjasta verk spænska leikstjórans Jaume Collet-Serra sem gerði m.a. myndirnar Orphan og Unknown og sýndi með þeim að hann hefur meistaraleg tök á að byggja upp dularfulla atburðarás og spennu. Með aðalhlutverkið fer Liam Neeson, en hann lék einnig aðalhlutverkið í Unknown eins og margir eflaust muna.

Lögreglumaðurinn Bill Marks hefur um skeið sinnt löggæslu í háloftunum þótt honum leiðist fátt meira en að fljúga. Í 40 þúsund feta hæð yfir Atlantshafi, í sneisafullri farþegavél á leið frá New York til London, fær hann þó dag einn um nóg að hugsa þegar óþekktur aðili sendir honum textaskilaboð þess efnis að hann muni myrða einn farþega um borð á 20 mínútna fresti  héðan í frá uns látið verði að kröfum hans. Þær kröfur snúast í fyrstu um að himinhá peningaupphæð verði lögð inn á ákveðinn reikning.

Í fyrstu heldur Bill að verið sé að spila með hann enda getur hann ekki ímyndað sér hvernig þessi aðili ætlar að fremja morð um borð í vélinni án þess að upp um hann komist um leið. En þegar einn farþeginn finnst myrtur á salerninu 20 mínútum síðar áttar Bill sig á því að hótunin var ekkert grín og um leið að þetta er bara byrjunin á því sem koma skal.

Non-Stop verður sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Keflavík og
Akureyri, Ísafjarðarbíói, Selfossbíói og Bíóhöllinni á Akranesi.