Þrjár íslenskar í Marrakech

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Marrakech, Marokkó, mun fara fram dagana 29. nóvember til 7. desember. Á hátíðinni verður sérstakur norrænn kvikmyndafókus, sem kemur til með að vera sá stærsti sinnar tegundar sem fram fer utan Norðurlandanna, samkvæmt tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Alls verða sýndar 47 norrænar kvikmyndir eftir 33 leikstjóra. marrakesh 3 íslenskar kvikmyndir eru hluti af þessum kvikmyndafókus, en þær eru 101 Reykjavík í leikstjórn Baltasars Kormáks, Nói Albínói í leikstjórn Dags Kára og Borgríki í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar.

Baltasar Kormákur, Dagur Kári, Kristín Andrea Þórðardóttir framleiðandi Borgríkis og Valdís Óskarsdóttir verða viðstödd hátíðina í boði aðstandenda hennar. Þá verða Óskarsverðlaunaleikstjórarnir dönsku Bille August (Pelle sigrar heiminn) og Susanne Bier (Hævnen) einnig viðstödd hátíðina.

Á fókusnum verður farið um víðan völl þar sem kvikmyndir frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð verða sýndar. Auk þess verður norrænum kvikmyndum frá hinum ýmsu tímaskeiðum gert hátt undir höfði. Klassískar myndir eftir Danann Carl Theodor Dreyer og Svíana Victor Sjöström og Ingmar Bergman verða þeirra á meðal.

Nánari upplýsingar um hátíðina má finna hér.