Myndir Jóhanns loksins komnar á DVD

1458557_1015165308Myndirnar Óskabörn þjóðarinnar (2000) og Ein stór fjölskylda (1995) eftir Jóhann Sigmarsson hafa lengi verið ófáanlegar. Núna hefur Bergvík loksins gefið þessar költ myndir út á DVD. Báðar útgáfurnar eru með enskum texta og heimildarmynd um gerð myndanna má einnig finna á diskunum.

Óskabörn þjóðarinnar kom út árið 2000 og í aðalhlutverkum eru Óttarr Proppé, Grímur Hjartason, Ragnheiður Axel og Davíð Þór Jónsson. Kvikmyndin segir frá karamelluþjófum og eiturlyfjafíklum sem lifa og hrærast í eigin draumum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta er fólk sem á sér ekki viðreisnar von vegna sjúklegs ástands.

Ein stór fjölskylda kom út árið 1995 og er fyrsta myndin sem Jóhannes leikstýrir. Þar áður skrifaði hann handritið að Veggfóðri sem Júlíus Kemp leikstýrði.

Ein stór fjölskylda fjallar um Jónas Þór (Jón Sæmundur) sem er í misheppnuðu sambandi með Maríu (Ásdís Sif Gunnarsdóttir). Þau búa í kjallara hjá velstæðum foreldrum Maríu. Jónas er sölumaður fyrir útflutningsfyrirtæki sem faðir Maríu (Kristján Arngrímsson) rekur. Jónas ákveður að slíta sambandinu við Maríu og flytja út frá fjölskyldunni ásamt hundinum sínum. Hann leigir sér lítið herbergi úti í bæ og fer að lifa lífinu á krítarkorti tengdaföður síns.

Ekki er langt síðan Bergvík gaf út DVD diskinn Land og synir annars vegar og Útlaginn hinsvegar. Báðar útgáfurnar eru skannaðar inn beint af filmu í bestu mögulegum gæðum svo það má með sanni segja að þau hjá Bergvík séu dugleg að færa íslenska kvikmyndamenningu heim í stofu.

Hægt er að nálgast diskana í næstu verslun, svo sem Pennanum, Hagkaup og Skífunni.