Del Toro gerir Halloween-Simpsons

Á sunnudaginn verður sýndur í Bandaríkjunum árlegur Halloween þáttur Simpsons teiknimyndaþáttanna, en titill hans er Treehouse of Horror XXIV.

Framleiðendur þáttanna fengu í þetta skiptið leikstjórann Guillermo del Toro til að búa til þriggja mínútna opnunaratriði fyrir þáttinn, en marga mánuði tók að búa kynninguna til samkvæmt frétt vefsíðunnar The Filmstage.

simpsons

Í myndinni er farið yfir víðan völl hrollvekjuhefðarinnar og -sögunnar og vísað í myndir eins og The Shining og mynd del Toro, Pan’s Labyrinth, svo eitthvað sé nefnt.

Í samtali við tímaritið Entertainment Weekly segir del Toro að hann hafi viljað tengja kunnuglega hluti úr þáttunum við margar þekktustu hrollvekjur kvikmyndasögunnar. Til dæmis nefnir hann að hann lætur frú Krabappel vera ásamt hrollvekjumeistaranum Alfred Hitchcock fyrir utan skóla sem er tilvísun í mynd Hitchcock, The Birds, en í myndinni er sena sem gerist fyrir utan skólann í Bodega Bay.

Einnig notar hann kjarnorkuúrgang frá kjarnorkuveri Mr. Burns til að gera uppvakninga, og Maggie er í saxófóntíma hjá öllum Óperudraugum sem hafa verið gerðir.

„Þetta var einstakt tækifæri,“ sagði del Toro í viðtalinu.

Sjáðu atriðið hér fyrir neðan: