Harlin í Úralfjöllunum – Stikla og plaköt

Hasarleikstjórinn Renny Harlin lætur ekki deigan síga, þó svo að verkefnin sem hann fær inn á borð til sín séu ekki í sama gæðaflokki og þegar hann var upp á sitt besta.

Hver man ekki eftir spennutryllinum Die Hard 2 og Cliffhanger ( með Sylvester Stallone í fjallgöngu á hlýrabolnum í 50 gráðu frosti ), svo ekki sé minnst á hina ágætu The Long Kiss Good Night með fyrrum eiginkonu hans, Geena Davis, í hlutverki harðsoðinnar kven-hasarhetju.

Eftir að Harlin gerði sjóræningjafloppið Cutthroat Island árið 1995, fór að halla undan fæti hjá leikstjóranum og fátt markvert hefur komið frá honum síðan.

devils pass

Síðustu árin hafa það einkum verið ódýrar hrollvekjur og beint-á-dvd myndir, sem Harlin hefur leikstýrt auk þess sem hann hefur unnið við þáttagerð í sjónvarpi.

Nú er hinsvegar glæný bíómynd að koma frá karli, hrollvekja í svokölluðu found-footage formi ( fundnir vídeóbútar ), sem byggð er á sannsögulegum atburðum.

Fyrsta stiklan og plaköt hafa nú birst fyrir myndina sem upphaflega hét The Dyatlov Pass Incident, en heitir núna Devil´s Pass.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Myndin segir frá hópi nemenda sem rannsakar dularfullan dauða níu fjallgöngumanna í rússnesku Úral fjöllunum. Sagan er byggð á raunverulegu óleystu máli sem gerðist árið 1959, en þessu sama máli hafa verið gerð skil í fjölmörgum heimildamyndum.

devils_pass_poster1 devils_pass_poster2

Devil´s Pass verður frumsýnd í takmarkaðri dreifingu í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum þann 23. ágúst nk.

Hvernig lýst þér á þessa nýju Harlin mynd? Er hann kominn aftur á beinu brautina?