Mandela aftur á hvíta tjaldið

Long_Walk_FreedomFyrrverandi forseti Suður-Afríku virðist vera sívinsælt viðfangsefni framleiðanda, því nú á að gera nýja mynd sem ber heitið Long Walk To Freedom. Í myndinni verður farið í gegnum ævisögu Mandela allt frá barnsaldri og þar til hann verður forseti árið 1994.

Mandela var 27 ár í fangelsi í Suður-Afríku fyrir að berjast gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda. Honum var sleppt árið 1990 þegar stjórn hvíta minnihlutans hrökklaðist frá völdum. Mandela var síðan kjörinn forseti Suður-Afríku árið 1994 og gegndi embættinu til 1999.

Morgan Freeman lék Mandela eins og frægt er í kvikmyndinni Invictus. Í þeirri mynd var einblínt á heimsmeistaramótið í rúgbý árið 1995, þar sem Mandela leitaði til fyrirliða suður-afríska liðsins til þess að breyta ímynd landsliðsins svo það gæti orðið sameiningartákn þjóðarinnar.

Í þetta sinn hinsvegar leikur breski leikarinn Idris Elba þjóðhetjuna sem barðist gegn aðskilnaði svartra og hvítra. Elba hefur áður leikið í kvikmyndum á borð við Rock N Rolla og Prometheus.

Áætlað er að frumsýna Long Walk To Freedom í nóvember næstkomandi.