CSI: NY hættir, Robin Williams byrjar

Stærsta sjónvarpsstöð Bandaríkjanna, CBS, hefur ákveðið að taka CSI: NY sjónvarpsþættina af dagskrá, en sjónvarpsstöðin tilkynnti nú um helgina hvaða sjónvarpsþættir yrðu á dagskrá næsta vetrar.

Meðal þeirra sem koma að nýjum þáttum á stöðinni eru nafnkunnir framleiðendur eins og Jerry Bruckheimer, Chuck Lorre, Greg Garcia og David E. Kelley og vel þekktir leikarar eins og Robin Williams, Will Arnett og Marg Helgenberger.

Sjónvarpsstöðin ætlar að setja sjö nýjar sjónvarpsþáttaseríur á dagskrá, þrjár dramaseríur og fjórar gamanþáttaseríur. Engar upplýsingar hafa verið gefnar um hvenær seríurnar hefja göngu sína. Eins og við sögðum frá um daginn ákvað stöðin að gera ekki sjónvarpsseríu eftir The Beverly Hills Cop með Eddie Murphy sem framleiðanda og gestaleikara, eins og margir höfðu búist við.

Meðal þátta sem slegnir eru af eru CSI: NY eins og fyrr sagði og þættirnir Rules of Engagement, Vegas og Golden Boy.

Nýju þættirnir eru eftirfarandi:

Reckless – sjóðheitur lögfræðiþáttur þar sem lögfræðingar laðast hvor að öðrum kynferðislega mitt í þeim málum sem þeir þurfa að takast á við. Helstu leikarar eru Cam Gigandet og Anna Wood.

Hostages – Jerry Bruckheimer framleiðir. Byggður á Ísraelskum þáttum. Leikararnir Toni Collette og Dylan McDermott leika aðalhlutverkin. Fjallar um fjölskyldu sem flækist í pólitískt samsæri sem breytir lífi þeirra að eilífu.

Intelligence  – fjallar um leyniþjónustumann með örflögu í heilanum. Leikarar eru m.a. Josh Holloway, Helgenberger og Meghan Ory.

We Are Men – fjallar um ungan mann sem vingast við reyndari stráka sem hann hittir í skammtímaleiguhúsnæði.  Leikarar eru m.a. Chris Smith, Kal Penn, Tony Shalhoub og Jerry O’Connell.

Mom – er frá framleiðandanum Lorra, sem gerði Big Bang Theory og Two and a Half Men. Leikarar eru Anna Faris og Allison Janney m.a. Í þáttunum þá er einstæð móðir, sem er nýbúin að fara í meðferð, að reyna að púsla lífi sínu saman á nýjan leik.

The Millers – fjallar um nýlega fráskilinn mann ( Arnett ). Foreldrar hans eiga í hjónabandserfiðleikum, sem flækir líf hans sjálfs. Aðrir leikarar eru m.a. Margo Martindale, J.B. Smoove og Beau Bridges.

Crazy Ones – fjallar um feðgin sem starfa í auglýsingageiranum. Helstu leikarar eru  Williams og Sarah Michelle Gellar