Næturbrölt Gyllenhaal og Russo

Bandaríski leikarinn Jake Gyllenhaal fékk smjörþefinn af heimi glæpafréttamennsku þegar hann lék skopmyndateiknarann Robert Graysmith í mynd David Fincher Zodiak árið 2007. Nú segir Variety kvikmyndaritið frá því að leikarinn hyggist snúa aftur í þann sama heim, ásamt leikkonunni Rene Russo. Um er að ræða myndina Nightcrawler, eða Næturbrölt í lauslegri íslenskri þýðingu, sem er sjálfstæð framleiðsla og mun verða leikstýrt af Dan Gilroy, en myndin verður fyrsta mynd hans sem leikstjóra. Gilroy skrifar einnig handritið.

Gilroy er þekktastur fyrir handritaskrif sín og hefur skrifað myndir eins og The Bourne Legacy, The Fall eftir Tarsem Singh, og Two For The Money. Bróðir hans Tony Gilroy, sem skrifaði með honum síðustu Bourne kvikmynd, mun verða framleiðandi Nightcrawler.

Myndin fjallar um ungan og metnaðarfullan mann sem kynnist næturveröld hins lausráðna glæpafréttamanns í Los Angeles borg.

Af Rene Russo er það annars að frétta að hún mun snúa aftur í Thor: The Dark World í hlutverki Friggjar. Gyllenhaal, er nú við tökur á spennutryllinum Prisoners eftir Denis Villeneuve en þar leikur hann rannsóknarlögreglumann sem leitar að týndri stúlku, en þarf einnig að takast á við föður stúlkunnar, sem leikinn er af Hugh Jackman, sem vill meina að lögreglumaðurinn leggi ekki nógu hart að sér við rannsóknina. Faðirinn tekur til þess bragðs að ræna þeim sem hann heldur að hafi drepið stúlkuna.

Prisoners kemur í bíó 20. september í Bandaríkjunum en 4. október á Íslandi.

Stikk: