Bloom verður hvítur Rómeó á Broadway

Kvikmyndaleikarinn Orlando Bloom, sem er þekktur fyrir leik sinn í Pirates of the Carribeans myndunum og Lord of the Rings myndunum, ætlar að leika sjálfan Rómeó í leikritinu Rómeó og Júlía eftir William Shakespeare, á leiksviði á Broadway næsta haust, að því er fram kemur í frétt The Huffington Post.

Í hlutverki Júlíu verður hin þeldökka Condola Rashad, en það að stilla þeim Bloom saman í aðalhlutverkunum er hluti af áætlun leikstjóra verksins að fara óhefðbundnar leiðir við uppsetninguna.

„Það síðasta sem við vildum gera var að gera einhverja hástemmda, sígilda útgáfu af Rómeó og Júlu,“ segir leikstjórinn David Leveaux, sem hefur fengið bandarísku Tony leikhúsverðlaunin fimm sinnum, og bætir við að farin verði sú leið að gera einfalda og lágstemmdari uppfærslu af leikritinu en vant er.

Ásamt því sem aðalleikari og aðalleikona verða hvítur og þeldökk, þá verða fjölskyldurnar tvær sem berast á banaspjót í leikritinu af sitthvorum kynþættinum; The  Capulets samanstanda af þeldökkum leikurum og the Montagues af hvítum leikurum.

Leveaux er ekki óvanur því að setja upp Broadway leikrit með Hollywood stjörnum. Hann vann með Antonio Banderas í söngleiknum Nine og Kevin Kline í Cyrano de Bergerac.

Frumsýning verður 19. september en forsýningar byrja 24. ágúst í Richard Rodgers leikhúsinu í New York.

Nú er bara að panta sér miða á Broadway til að berja þar Bloom og Rashad augum í haust.