Independence Day 2 og 3 á leiðinni

Nú eru liðin nærri því 17 ár frá því að geimverur sprengdu Hvíta húsið í Washington í tætlur með leysigeisla í hinni stórbrotnu Independence Day eftir Roland Emmerich, auk þess sem geimverurnar sprengdu Empire State Building í New York og fleiri byggingar um allan heim – í rauninni þá gjöreyðilögðu geimverurnar flestar helstu borgir á jörðinni.

Emmerich er langt í frá hættur að ónáða Hvíta húsið því í myndinni White House Down, nýjustu mynd hans, ræðst hersveit á Hvíta húsið og leggur það undir sig, þó ekki sé vitað enn hvort húsið verði eyðilagt í þetta sinn.

En Emmerich er heldur ekki búinn að fá nóg af geimverutryllum, því í nýju samtali við tímaritið Entertainment Weekly segir Emmerich að hann sé með í undirbúningi tvær Independence Day framhaldsmyndir, ID Forever og ID Forever Part II. Myndirnar eiga að gerast 20 árum eftir að fyrsta myndin gerist þegar neyðarkall sem geimverurnar sendu heim hefur borist til heimaplánetu þeirra og björgunarleiðangur mætir á svæðið. „Mannkynið vissi að einn daginn myndu geimverurnar koma aftur,“ útskýrir leikstjórinn, sem hefur klárað handritin fyrir myndirnar tvær ásamt meðhöfundi sínum að upprunalegu myndinni, Dean Devlin, en þeir hafa afhent handritshöfundi og framleiðanda White House Down handritin, til frekari vinnslu. „Og þeir vita að eina leiðin til að ferðast í geimnum er í gegnum ormagöng. Þannig að fyrir geimverurnar, þá myndi ferðalag til Jarðar taka tvær til þrjár vikur en fyrir okkur myndi það ferðalag taka 20  – 25 ár.“

Emmerich segist einnig vera að vinna með fólki í hönnunardeild sinni að mögulegu útliti ID Forever. „Þetta er breyttur heimur. Þetta er eins og hliðarsaga.  [Mennirnir] hafa tileinkað sér alla tækni geimveranna. Við kunnum hinsvegar ekki að margfalda hana því þetta er lífrænt ræktuð tækni, en við vitum hvernig andþyngdaraflstæki getur farið inn í flugvélar,“ útskýrir Emmerich.

Samkvæmt Emmerich hefur Bill Pullman, sem lék forseta Bandaríkjanna í upprunalegu myndinni, nú þegar staðfest endurkomu. Will Smith, sem lék aðalhlutverk í myndinni, hefur hinsvegar ekki staðfest að hann muni mæta aftur til leiks.

Emmerich segir að sagan muni snúast um nýja kynslóð af hetjum, þar á meðal stjúpson persónu Will Smith úr Independence Day, en einnig yngri persónur; „þetta er dálítið eins og synirnir séu að taka við,“ bætir Emmerich við.

Hann lofar því að fyrri framhaldsmyndin muni skilja menn eftir í lausu lofti, svo alla muni hungra í framhald. „Fyrsta myndin endar vel, en aðeins nægjanlega vel til að gefa mannkyninu von. En í annarri myndinni þá þurfa þeir að vinna bug á geimverunum.“

En svo má spyrja sig, eftir gjöreyðinguna í Independence Day, hvað er eftir fyrir nýju geimverurnar að eyðileggja? „Við höfum endurbyggt jörðina,“ segir Emmerich brosandi. „En geimverurnar munu líka gera aðra hluti.“