Fimmta Bourne myndin væntanleg

Adam Fogelson, forstjóri hjá Universal Pictures, sagði nýlega í viðtali að 100% líkur væru á því að framleidd yrði önnur Bourne mynd en þær eru nú þegar fjórar talsins. Af þessum fjórum myndum hefur Matt Damon farið með aðalhlutverk í þremur þeirra sem Jason Bourne. Aftur á móti var Matt Damon ekki tilbúinn til að leika í fjórðu myndinni og því var Jeremy Renner fenginn til að leika aðalhlutverkið en karakterinn sem hann lék þar hét Aaron Cross og var líkt og Jason Bourne, sérþjálfaður njósnari og leigumorðingi.

Í viðtalinu viðurkennir Adam Fogelson að fjórða Bourne myndin, The Bourne Legacy, hafi ekki gengið jafn vel og þriðja myndin, The Bourne Ultimatum, en hann benti jafnramt á að sú fjórða hafi verið ódýrari í framleiðslu heldur en sú þriðja. Samtals halaði The Bourne Legacy inn 276 milljónum dollara á heimsvísu á meðan að Bourne Ultimatum, með Matt Damon í aðalhlutverki, halaði inn tæplega 443 milljónum dollara á heimsvísu. Munurinn var því töluverður.

Það sem er hins vegar athyglisvert í viðtalinu er það að Adam talar um að Matt Damon sé spenntur fyrir endurkomu sem Jason Bourne en það er eflaust flestum í fersku minni þegar Matt Damon mótmælti harðlega framhaldi á þessari mögnuðu spennuseríu. Það verður því spennandi að sjá hvort Matt Damon snúi aftur sem Jason Bourne í fimmtu Bourne myndinni.