Michael Mann og Chris Hemsworth leiða saman hesta sína

Kvikmyndavefurinn Hollywood Reporter greinir frá því í dag að leikstjórinn Michael Mann og stórleikarinn Chris Hemsworth muni leiða saman hesta sína í nýjum spennutrylli. Ekki er þó gefið upp hvenær myndin mun líta dagsins ljós en framleiðslufyrirtækið Legendary Pictures mun sjá um framleiðslu myndarinnar. Mikil leynd ríkir yfir söguþræðinum en þó hefur verið gefið upp að myndin muni fjalla um tölvu-hryðjuverk (cyber terrorism).

Michael Mann er með frægustu leikstjórum Hollywood og á ansi farsælan feril að baki. Á ferilskrá sinni sem leikstjóri á hann kvikmyndir eins og Heat, Ali og The Insider en allar kvikmyndirnar hlutu mikið lof gagnrýnenda á sínum tíma og fengu fjölmargar tilnefningar. Þá hafa flestar kvikmyndir kappans halað inn miklum tekjum og má þar helst nefna Public Enemies og Miami Vice.

Hvað Chris Hemsworth varðar þá hefur hann á undanförnum árum skotið sér upp á stjörnuhimininn með góðri frammistöðu í kvikmyndum á borð við Thor og The Avengers.

Það verður því gaman að sjá útkomuna af samvinnu þessara tveggja höfðingja.