Nýútskrifuð smíða bombu

Eftir að hafa hafið feril sinn sem leikari í þremur myndum eftir Whit Stillman, myndunum Metropolitan, Barcelona og The Last Days of Disco,  ákvað Chris Eigeman að fara hinum megin við kvikmyndatökuvélina og gerast leikstjóri. Fyrsta myndin hans, Turn the River, var frumsýnd árið 2007, og nú er von á annarri mynd Eigeman, sem er nokkuð stærri í sniðum.

Í myndinni sem ber titilinn Midnight Sun, leika aðalhlutverk þau Jesse Eisenberg, Diane Kruger og Emile Hirsch. Myndin gerist árið 1943 og segir söguna af því þegar Eisenberg og  Hirsch, nýútskrifuð úr skóla, byrja að vinna fyrir bandarísk stjórnvöld. Fljótlega eru þau send úr líflegu og skemmtilegu umhverfi sínu í New York borg þar sem djassinn hljómar daginn út og inn, og til Nýju Mexíkó til að vinna þar að háleynilegu verkefni, sem mun víst vera smíði kjarnorkusprengjunnar. Þar eru þau skyndilega komin í samfélag vísindamanna í miðri eyðimörk, beint úr iðandi stórborgarlífinu.

Tökur myndarinnar eiga að hefjast næsta sumar og stefnt er að frumsýningu á næsta ári.