Haunted komin á ról

 

Bækur Chuck Palahniuks hafa átt misgreiða leið að hvíta tjaldinu. Það eru fjölmargir erfiðleikar sem fylgja því að kvikmynda Palahniuk, enda segist hann sjálfur „reyna að skrifa bækur sem sýna hluti sem kvikmynd gæti hefðbundið ekki sýnt, þannig að á sinn hátt er ég alltaf að skrifa gegn aðlögunum.“ Þessi streita birtist oftar en ekki í suddalegu eða grófu söguefni, en líka í brotakenndri og óhefðbundinni frásagnartækni, auk fyrstu persónu sögumanns sem er alltaf áhyggjuefni í kvikmyndaaðlögun (sérstaklega þegar hann er óáreiðanlegur).

Allt small þetta undurfallega saman í Fight Club, sem er jafnframt besta dæmið um aðlögun á bók eftir þennan róttæka og frumlega höfund (og með betur heppnuðu bókar-kvikmynda-aðlögunum yfir höfuð) en utan hennar hefur gengið furðuilla að kvikmynda höfundarverk Palahniuks. Choke fékk hlandvolgar viðtökur og Survivor og Invisible Monsters hafa setið fastar á vinnslustigi í áraraðir og erfitt að halda trúnni að þær líti nokkurn tímann dagsins ljós.

Önnur mynd sem hefur hingað til verið föst í maskínunni er Haunted, en hún var fyrst tilkynnt í vinnslu árið 2008. Myndin byggir á samnefndu smásagnasafni (sem myndar heila skáldsögu) þar sem fólk skiptist á að segja sögur sem verða æ tryllings- og hryllingslegri eftir því sem á líður. Í vikunni heyrðust þær gleðifréttir á vefsíðu höfundarins Haunted hefði nú hlotið fjármagn og væri því loks að verða að veruleika. Leikstjóri og handritshöfundur verður hinn belgíski Koen Mortier, utangarðsmaður í Hollywood og því vonandi réttur maður til að færa verkefnið alla leið.

Haunted á sér nokkuð alræmdan orðstír, ekki síst vegna smásögunnar „Guts“, og því nokkuð ljóst að sama hversu vel til tekst að laga smásagnasafnið að kvikmyndaforminu, þá verður gleðiefni ef myndin nær virkilega að dröslast upp úr framleiðslusvaðinu og á tjöldin til okkar, því löngu er orðið tímabært að fá nýja Palahniuk mynd.

Hér má hlýða á höfundinn sjálfan lesa hina alræmdu „Guts“ fyrir þá sem vilja loka augunum og byrja að ímynda sér hvernig myndræn útgáfa gæti mögulega litið út: