Frumsýning: Hákarlabeita 2

Sena frumsýnir teiknimyndina Hákarlabeita 2 – Hættur á háflæði, á föstudaginn næsta, þann 1. febrúar, í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri.

Hákarlabeita 2 er framhald samnefndrar teiknimyndar sem sýnd var hér á landi fyrir nokkrum árum, en þessar myndir höfða fyrst og fremst til yngstu áhorfendanna.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:

Skrautfiskurinn Sær býr ásamt fjölmörgum öðrum fiskum og dýrum á stóru kóralrifi sem um leið er sannkölluð sjávarparadís. Og þótt Sær sé frekar lítill er hann með eindæmum hugrakkur og snjall eins og hann sýndi svo vel í fyrri myndinni þegar hann hratt árás vonda hákarlsins Týs á kóralrifið og dýrin sem þar búa.

En Týr hefur ekki gleymt sneypuför sinni og hyggur á hefndir. Hann hefur nú safnað saman fleiri meinfýsnum hákörlum og ætlar sér að ráðast á kóralrifið á næsta háflæði. Að auki hefur honum tekist að plata Sæ með því að senda útsendara sinn, háfinn Rúna, til að njósna fyrir sig á kóralrifinu og helst veikja varnir þess áður en hann og hinir hákarlarnir láta til skarar skríða.

Sær ákveður að þjálfa hina fiskana í kóralrifinu svo þeir geti varist hinni yfirvofandi árás, en áætlunin gengur út á að setja upp sýningu sem myndi fá mannfólkið til að hjálpa fiskunum að verjast Tý og vondu félögunum hans. En Rúni gerir sitt til að skemma þessa áætlun og spurningin er hvort Sær átti sig í tíma á að hann sé svikari og nái að snúa yfirvofandi vörn í sókn?

Hákarlabeita 2 er frumsýnd á Íslandi á föstudag í eftirfarandi kvikmyndahúsum: Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíó Akureyri.

Leikstjóri: Tómas Freyr Hjaltason.
Með helstu hlutverk í talsetningunni: Jóhann G Jóhannsson, Víkingur Kristjánsson, Viktor Már Bjarnasson, Valdimar Flygenring, Selma Björnsdóttir, Steinn Ármann Magnússon, Magnús Ólafsson og Aron Máni Tómasson.
Frumsýnd: Föstudaginn 1. febrúar
Hvar: Smárabíó, Háskólabíói, Laugarásbíó og Borgarbíó Akureyri.