Snakes on a Plane leikstjóri látinn

David R. Ellis, fyrrum áhættuleikari sem sneri sér að kvikmyndaleikstjórn, er látinn, 60 ára að aldri.

Ellis er þekktur fyrir leikstjórn sína á Snakes on a Plane, og var í Suður Afríku að undirbúa nýjustu mynd sína KITE með Samuel L. Jackson í aðalhlutverki, þegar hann lést.

Kite er leikin útgáfa af frægri japanskri teiknimynd, eins og við sögðum frá hér á síðunni á dögunum.

Ekki er enn vitað hvernig dauða Ellis bar að.

Ferill Ellis í Hollywood byrjaði á miðjum áttunda áratug síðustu aldar þegar hann vann í áhættuleikaradeild ýmissa frægra kvikmynda, svo sem Smokey and the Bandit, Invasion of the Body Snatchers, Fast Times at Ridgemont High og Lethal Weapon.

Ferill hans tók skref fram á við á níunda áratugnum þegar hann fór að aðstoða við leikstjórn mynda og vann með leikstjórum eins og Phillip Noyce við myndina Clear and Present Danger, og Barry Levinson við gerð Sphere, auk þess sem nafn hans tengdist stórmyndum eins og The Matrix Reloaded, Harry Potter and the Sorcerer’s Stone og Master and Commander: The Far Side of the Word.

Ellis leikstýrði sinni fyrstu mynd þegar hann var 44 ára gamall, en það var myndin Homeward Bound 2: Lost in San Francisco. Þá hefur hann leikstýrt tveimur myndum í Final Destination seríunni sem og áðurnefndri Snakes on a Plane, og spennutryllinum Cellular og vísindatryllinum Asylum.

Síðasta myndin sem hann leikstýrði var Shark Night 3D árið 2011.