Sovéskt sci-fi á Svörtum sunnudegi

Bíómyndaklúbburinn Svartir sunnudagar í Bíó Paradís heldur ótrauður áfram að sýna jaðarmyndir á sunnudagskvöldum í bíóinu. Næsta mynd klúbbsins er mynd Andrei Tarkovsky, Solaris, frá árinu 1972, en í tilkynningu bíósins segir að jólin verði kvödd með sovéskum þunga.  „Hér er á ferðinni frægasta költ myndin frá tímum járntjaldsins. Hún var sýnd í Sovétríkjunum samfleytt í fimmtán ár í nokkrum vel völdum bíóhúsum. Í dag er hún talin með bestu sci-fi myndum sem gerðar hafa verið,“ segir í tilkynningu bíósins.

 

Solaris er byggð á skáldsögu eftir rússneska vísindaskáldsöguhöfundinn Stanislav Lem og var hún endurgerð árið 2002 og þá með George Clooney í aðalhlutverki. Sagan segir frá sálfræðingi sem er kallaður til starfa á geimstöð sem er á sporbaug við plánetuna Solaris. Þar eru vægast sagt undarlegir hlutir á ferli þar sem minningar áhafnarinnar byrja að líkamnast.

Svartir sunnudagar láta búa til sérstakt plakat fyrir hverja mynd sem klúbburinn sýnir. Plakatið fyrir Solaris gerði myndlistarmaðurinn Davíð Örn Halldórsson, en Ómar Örn Hauksson grafískur hönnuður sá um uppsetninguna á því.  Sjáið plakatið hér að neðan:

Solaris verður sýnd á þrettándanum, 6. janúar, kl. 20:00 í Bíó Paradís. Ath. aðeins þessi eina sýning.

Sjáðu stikluna fyrir Solaris hér að neðan: