Twilight og Bond sigra jólasveininn

Í Bandaríkjunum er þakkargjörðarhátíð og því löng helgi, sem byrjaði sl. fimmtudag á Þakkargjörðardaginn. Kvikmyndaframleiðendur reyna gjarnan að bjóða upp á nýjar fjölskyldumyndir þessa helgi, en frumsýndar voru myndirnar Rise of the Guardians, sem er teiknimynd þar sem Jólasveinninn, páskakanínan, tannálfurinn, Snæfinnur snjókarl og Óli lokbrá sameinast í baráttunni gegn vonda kallinum, og Life of Pi, leikin mynd um dreng sem lendir í sjóskaða og endar einn á báti úti á reginhafi með sirkusdýrum, þar á meðal tígrisdýri. Einnig var frumsýnd myndin Red Dawn, sem við sögðum frá hér á kvikmyndir.is fyrir helgi.

Sjáðu stikluna fyrir Rise of the Guardians:

Þessar myndir þurftu þó að lúta í lægra haldi í keppni um áhorfendur fyrstu tvo daga þessarar löngu helgar, því The Twilight Saga: Breaking Dawn Part 2 og Skyfall, héldu áfram að raka saman peningum, og voru á toppi aðsóknarlistans.

Breaking Dawn, sem er fimmta og síðasta myndin í Twilight seríunni, þénaði 21 milljón Bandaríkjadali þessa tvo sýningardaga, en Skyfall 15,1 milljón dala þessa sömu daga.

Lincoln, nýjasta mynd Steven Spielberg, þénaði 9,1 milljón dala þessa tvo daga, þ.e.  miðvikudagskvöldið og á fimmtudeginum, og stefnir í 30 milljón dala tekjur fyrir alla helgina.

Í fjórða sæti kom svo Rise of the Guardians með 8,6 milljónir dala í tekjur, sem er tvöfalt á við það sem Arthur Christmas þénaði á sama tíma í fyrra, en mun minna en The Muppets þénuðu í fyrra, eða 12,3 milljónir dala.

Life of Pi kom svo þar á eftir með 8,2 milljónir í tekjur, sem er samt tvisvar sinnum meira en Scorcese myndin Hugo þénaði á sama tíma í fyrra. Life of Pi stefnir í 30 milljónir dala í tekjur yfir alla helgina, sem er góð byrjun fyrir myndina.

Sjáðu stikluna fyrir Life of Pi:

Red Dawn þénaði 7,4 milljónir dala, og spáð er að myndin verði búin að þéna 20 milljónir dala þegar helgin er á enda, sem er alls ekki slæmt.

Hér að neðan er stiklan fyrir Red Dawn: