Svikull geimsníkill – Ný stikla

Nú þegar Twilight bálkurinn er að klárast ( síðasta myndin verður frumsýnd á föstudaginn ) þá er ekki seinna vænna að kynna til sögunnar næsta verk Stephanie Meyer höfundar Twilight, vísindatryllinn The Host.

Hér að neðan er ný stikla úr myndinni, en söguþráðurinn er áhugaverður:

Ósýnilegar geimverur hafa ráðist á Jörðina. Mennirnir verða hýslar fyrir þessar innrásarverur, sem taka yfir huga mannanna, en líkamarnir eru óbreyttir. Meirihluti mannkyns er nú undir yfirráðum geimveranna.

Einn hýslanna er Melanie Stryder,  en geimverusníkjudýrið í henni ( Wanda eins og hún er kölluð ) gerir öfugt við það sem því ber að gera, þ.e. að hjálpa geimverunum að ná yfirráðum yfir jörðinni. Geimveran binst hýsli sínum tilfinningalegum böndum, og ákveður að hjálpa frjálsum mannverum.

 

Leikstjóri er Andrew Niccol sem áður hefur gert vísindaskáldsögur eins og In Time og Gattaca.

Helstu leikarar eru Saoirse Ronan, Max Irons, Jake Abel, Diane Kruger, William Hurt og  Frances Fisher.

Myndin verður frumsýnd 29. mars, 2013.