Forsýning – Wreck-It Ralph

Sambíóin verða með forsýningar þann 3. og 4. nóvember á nýjustu teiknimyndinni frá Disney, Wreck-It Ralph, en myndin verður svo frumsýnd 9. nóvember nk.

Wreck-It Ralph gerist í heimi tölvuleikja og aðalpersónur hennar eru tölvuleikjakarakterar sem margir hverjir eru fyrir löngu orðnir heimsfrægir. Má þar nefna Maríó og drekann Bowser, Packman-draugana og marga fleiri. Aðalpersóna sögunnar er samt Ralph sem myndin dregur heiti sitt af. Hann hefur því hlutverki að gegna að vera „vondi kallinn“ í tölvuleiknum Fix-it Felix jr þar sem hann á að eyðileggja það sem góðu kallarnir eru að reyna að byggja upp.

Þótt Ralph sé í sjálfu sér öflugur vondur kall endar leikurinn samt ávallt með því að hann situr eftir með sárt ennið, sigraður og niðurlægður. Sjálfum er Ralph farið að leiðast þetta hlutverk sitt verulega. Hann dreymir í raun um að fá einhvern tímann að skipta um hlutverk og vera góði kallinn frekar en sá vondi, jafnvel hetjan. Og dag einn ákveður hann að gera eitthvað í málinu …

Aðalhlutverk í myndinni leika þau John C. Reilly, Jane Lynch, Sarah Silverman, Jack McBrayer, Adam Carolla, Jamie Elman og Rachael Harris. 

Leikstjóri er Rich Moore.

Myndin verður sýnd í eftirtöldum bíóum: Sambíóin Egilshöll, Sambíóin Álfabakka, Sambíóin Kringlunni, Sambíóin Akureyri, Sambíóin Keflavík og Laugarásbíó.

Fróðleiksmolar til gamans: 

  • Vefsíðan sem gerð var í tilefni af frumsýningu myndarinnar er bráðskemmtileg og eru áhugasamir hvattir til að heimsækja hana með því að smella hér.
  • • Wreck-It Ralph er fyrsta mynd leikstjórans Richs Moore í fullri lengd, en hann hefur um árabil verið viðloðandi teiknimyndaiðnaðinn og leikstýrði m.a. mörgum Simpsons– og Futuramaþáttum.

Smelltu hér til að skoða sýnishorn úr myndinni.