Frumsýning: House At The End Of The Street

Sambíóin frumsýna spennutryllinn House At The End Of The Street föstudaginn 2. nóvember nk. Myndin fjallar um mæðgur sem í kjölfar skilnaðar flytja til nýs bæjar og komast að því að stúlka sem hafði átt heima í næsta húsi hafði myrt foreldra sína og síðan horfið sporlaust.

Það eru þær Jennifer Lawrence, sem margir þekkja úr The Hunger Games, og Elisabeth Shue sem leika mæðgurnar Elissu og Söruh. Þær eru ekki búnar að vera lengi á hinum nýju heimaslóðum sínum þegar þær heyra söguna af því þegar stúlkan í næsta húsi myrti foreldra sína með köldu blóði án nokkurrar sýnilegrar ástæðu og hvarf síðan út í buskann að því er virðist. Sá eini sem eftir lifir af fjölskyldunni er bróðir stúlkunnar, Ryan (Max Thieriot), en hann býr enn í húsinu og er því nágranni mæðgnanna.

Óhætt er að segja að bæði morðmálið og Ryan veki athygli Elissu sem
leiðir til þess að hún og Ryan byrja að hittast þvert á vilja Söruh sem hefur á tilfinningunni að það búi eitthvað annað og meira á bak við
sakleysislegt útlit Ryans en hann vill vera láta.

Og brátt fara undarlegir hlutir að gerast sem í fyrstu valda því þó að Elissa verður bara enn forvitnari um málið. Hvað varð um systur Ryans eftir að hún framdi morðin? Getur verið að hún sé enn á lífi?

Eða getur kannski verið að hún búi enn í húsinu?

 

Fróðleiksmoli til gamans:

Sagan í myndinni er eftir Jonathan Mostow sem gerði m.a. myndirnar Breakdown og U-571. Upphaflega ætlaði hann sér að leikstýra myndinni sjálfur árið 2003 en úr því varð ekki vegna annarra verkefna á þeim tíma.