Lom sem lék hinn pirraða Dreyfus látinn

Í dag lést leikarinn Herbert Lom, 95 ára gamall, en Lom átti að baki feril sem spannaði 67 ár. Samkvæmt syni hans Alec Lom, þá kvaddi Herbert þennan heim á friðsælan hátt í svefni. Lom hefur búið mest megnis í Lundúnum síðan hann flutti frá heimalandi sínu Tékkóslavakíu árið 1939. Lom hét upphaflega Herbert Karel Angelo Kuchacevic ze Schluderpacheru.

Lom er líklega best þekktur fyrir hlutverk sitt í Pink Panther myndunum sex að tölu, en þar leikur hann pirraða lögreglustjórann Dreyfus sem rannsóknarlögreglumaðurinn Clouseau, leikinn af Peter Sellers heitnum, er að gera brjálaðan.

Á meðal annarra minnisstæðra hlutverka Loms má nefna geðlækninn í The Seventh Veil frá árinu 1945, undirheimaforingja í Night and the City frá árinu 1950 og evrópskan glæpamann í The Ladykillers.

Smellið hér til að lesa ítarlegra yfirlit yfir líf og feril Loms.