Looper forsýning… með meiru!

Við elskum bíómyndir. Við elskum sérstaklega góðar bíómyndir og kvikmyndaáhugamaðurinn gerir sér eflaust grein fyrir því að stundum nægir bara ekki að horfa á eina slíka í einu.

Tvöfaldar sýningar (þ.e. double feature) er í miklu uppáhaldi hjá þessum vef. Við höfum margoft reynt að vera með svoleiðis viðburði (sérstaklega í kringum forsýningar) en ýmsar ástæður hafa komið í veg fyrir það; myndirnar voru kannski of ólíkar, það fæst ekki pláss í sal til að víkja fyrir þeim, sitthvor dreifingaraðilinn sá um þær eða erfitt hefur verið að finna tvær nýjar myndir sem eiga erindi til sömu hópa.

Þeir sem sáu þessa fréttatilkynningu (eða þennan Facebook-viðburð) ættu að vera varir við það að við verðum með sérstaka forsýningu á sci-fi tryllinum Looper á mánudaginn næsta. Þetta er fyrsta sýning landsins á henni, fjórum dögum fyrir settan frumsýningardag, bæði hér og í BNA.
En í ljósi þess að svo stutt er á milli hennar og hinnar snargeggjuðu Lawless ákvað undirritaður að sýna þær saman, á sportprís. Fyrir þá sem vilja.

 

Svona virkar þetta:

(Hlélausa) Looper forsýningin verður kl. 20:00 í Sal 1 í Egilshöllinni. Hægt er að kaupa miða á þá sýningu staka. Á hana kostar 1400 kr.

Lawless sýnum við svo í sama sal kl. 22:30. Miðaverð á hana er (vitaskuld) almennt, en ef einhverjir vilja taka tvennuna þá kostar það ekki nema 1950 krónur.

Miðar fást í gegnum næstu miðasölu SAMbíóanna eða inná SAMbio.is. Athugið það samt að aðeins er hægt að kaupa miða á Looper staka í bíóinu sjálfu (sama hvaða SAMbíó hvað er), en þeir sem vilja kaupa miða á tvennuna geta gert það á netinu með því að smella á þennan hlekk. Tryggðu þér miða í tíma!

 

Glöggir taka væntanlega eftir því að Lawless verður frumsýnd um helgina og þess vegna er þetta augljóslega ekki forsýning, en (vonandi) þrælskemmtileg almenn sýning engu að síður, sem við munum hertaka, og gaman væri að fá Kvikmyndir.is notendur á hana líka til að halda stemmningunni gangandi. Fyrir rúman 500 kall auka. Það er vel þess virði!

En af hverju Looper og Lawless saman? Fyrir utan það að titlarnir eru báðir með tvö atkvæði og byrja á „L.“

Hmmm…

– Báðar eru virkilega góðar. Og  töff. Svipaðar á marga vegu en samt gríðarlega ólíkar.
– Báðar eru afar ofbeldisfullar (R-rated hasar hér á ferðinni, krakkar!)
– Báðar eru næstum því jafnlangar (118 og 116 mín.)
– Báðar koma frá upprennandi leikstjórum: Rian Johnson (Brick, The Brothers Bloom) og John Hillcoat (The Proposition, The Road). Hvorugur þeirra hefur hingað til farið eftir beisik Hollywood-reglum.
– Það eru brjóst í báðum myndum. Guð blessi Jessicu Chastain!
– Það eru leikarar úr The Dark Knight Rises í þeim. Nokkrir af þeim bestu.
– Báðar eru í 2D!!
– Bruce Willis er kominn í rétta gírinn. Það þarf varla einu sinni að ræða Tom Hardy. Hvor myndi vinna í slag, haldið þið?

Vefurinn er gríðarlega stoltur af þessum viðburði og vonast innilega til þess að sjá sem flesta þarna svo hægt sé að gera fleira í líkingu við þetta í náinni framtíð. Þetta snýst allt um að styrkja bíónördamenningu landsins og þess vegna vonum við að þetta siglir allt í réttu átt.

Sjáumst í Egilshöllinni.