5 gullfallegar mínútur úr Cloud Atlas

Fyrsta stiklan fyrir nýjasta þrekvirki Wachowski-systkinanna, Cloud Atlas, hefur nú fundið sér leið á netið en hún er rúmlega fimm mínútna löng. Fyrri verk Wachowski-systkinanna hafa búið yfir miklum hasarkrafti og brautryðjandi tæknibrellum, en að þessu sinni virðast þau ásamt leikstjóranum Tom Tykwer (Run Lola Run, Perfume) hafa fundið sér dramatískari og blíðari tón til að vinna með. Jafnvel tölvubrellurnar virðast nú sitja í aftursætinu.

Myndin er byggð á samnefndri bók sem teygir sögurætur sínar um fortíð, nútíð, og framtíð og segir frá hvernig líf fólks og tengingar þeirra við aðra geta haft stórtæk áhrif á umheimin og annað fólk á öðrum tímum. En ein sagan fjallar m.a. um morðingja sem umbreytir sér í hetju og verður áhrifavaldur byltingar í framtíðinni. Leikhópurinn er nánast of stór til að nefna hér þannig ég bendi einfaldlega á áhrifaríku stikluna, enda er sjón sögu ríkari:

Myndin er nánast þriggja tíma löng og prufusýningar hafa lofað góðu. Bókin sem myndin er byggð á hefur fengið mjög góða dóma og bíða eflaust margir spenntir eftir þessu svakalega vísindaskáldskapsþrekvirki. Myndin er væntanleg í bandaríkjunum síðar á þessu ári en enginn útgáfudagur hefur verið negldur hérlendis.

Kíkið svo á þessa kynningu, þar sem Tykwer og Wachowski-systkinin segja þér hvað þú gætir átt von á:

Hvernig leggst þetta í ykkur, kæru lesendur. Er þetta nýtt upphaf Wachowski-systkinanna eða er þetta önnur Southland Tales?