Riddick urrar yfir nýjum stillum

Ekki fyrir löngu var framtíð þriðju Riddick-myndarinnar óljós og jafnvel í húfi þar sem hún var í fimm ár á teikniborðinu og svo loks þegar tökur hófust í fyrra voru þær stöðvaðar jafn fljótt. Aðstandendur myndarinnar, og þá helst stjarna hennar og meðframleiðandinn Vin Diesel, létu þetta þó ekki á sig fá og kláruðust tökur í byrjun ársins. Hún hefur þá verið í eftirvinnslu í næstum þrjá mánuði núna, en Diesel hefur stytt biðina með reglulegum uppfærslum og stillum frá myndinni á Facebook-síðu sinni. Við höfum ekki talað um myndina, sem ber nú endanlega heitið Riddick, í dálítinn tíma þannig í tilefni þess að grófklippta útgáfa myndarinnar fær Vin Diesel til að urra ætla ég að skella inn þessum blessuðu stillum hér neðst; ásamt þeirri nýjustu, sem var birt í gær.

Þrátt fyrir stöðu Riddicks í enda seinni myndarinnar, The Chronicles of Riddick, hefur hann verið skilinn eftir á ókunnugri plánetu. Það líður ekki langt þangað til að déjà vu fer að hrjá Riddick þar sem plánetan virtist í fyrstu lífsnauð, en nú hafa íbúar hennar látið sjá sig og hvergi er hægt að finna betri kvöldverð heldur en mannakjöt. Kappinn fer þó úr öskunni í eldinn þar sem eina leiðin af plánetunni er með stórhættulegum hausaveiðurum sem hafa lengi elt hann. Inn í grautinn kemur síðan erkióvinurinn Vaako, leikinn aftur af Karl Urban, sem Riddick niðurlægði í síðustu mynd.

Þrátt fyrir að Riddick-serían sé kannski ekki upp á mjög marga fiska, þá er hægt að gleyma sér í þessum heimi og það er frábært að sjá þriðju myndina verða að veruleika. Þar sem eftirvinnslan gengur glimmrandi ætti ekki að vera langt í að markaðsdeild myndarinnar fari að taka við af Diesel og birta virkilega kjötað efni. Krossleggjum fingurnar fyrir plakati og stiklu á þessu ári.
Eins og er ætla þeir hjá Universal að skjóta á útgáfu á næsta ári, þá í fyrsta lagi í janúar.