Stjáni Blái er í góðum höndum

Eftir tveggja ára forvinnslu á næstu teiknimynd Sony Pictures Animation um skapgóða sjóarann Stjána Bláa hefur verkerfnið loksins fundið leikstjóra. Sjóarinn hefur aldrei verið jafn heppinn, því það er engin annar en hinn magnaði Genndy Tartakovsky, sem er nú einnig að vinna að sinni fyrstu teiknimynd í fullri lengd, Hotel Transylvania.

Skarpir lesendur kannast kannski við nafn kauðans, enda hafa flestir séð a.m.k. eitt af verkum hans, hvort sem það er Samurai Jack, handteiknuðu Clone Wars þættirnir, eða  hinir vanmetnu Sym-Bionic Titan. Einnig hefur hann unnið náið við þætti á borð við Power Puff Girls og Dexter’s Lab.

Væntanlega myndin um Stjána Bláa verður tölvuteiknuð og verður þetta fyrsta endurkoma Stjána Bláa á þessari öld, en um sjóaran hafa verið gerðir heilmargir þættir og jafnvel leikin kvikmynd með Robin Williams í aðalhlutverki. Það eru handritshöfundar Strumpana, þeir Jay Scherick og David Ronn, sem vinna að handriti myndarinnar.

Alls ekki slæmt að fá náunga sem hefur margoft verið tilnefndur til Annie-verðlaunanna og þriggja Emmy-verðlauna fyrir teiknimyndaþætti. Hann kann sitt fag betur en flestir aðrir og það verður gaman að sjá hann tækla góðkunna sjóarann.

Hafa lesendur séð eitthvað eftirminnilegt frá Tartakovsky, og er eitthvað eftir hann sem ykkur finnst standa upp úr? Og hvaða væntingar hafið þið fyrir Hotel Transylvania?