Takmörkuð markmið í meðgöngumynd

What to Expect When You’re Expecting er það sem hún er og sama hvaða ranghugmyndir hún hefur þá er hún alls ekki gerð fyrir alla. Ég get ómögulega séð fyrir mér marga karlmenn horfa á þessa mynd án þess að hafa verið dregnir í það af frúnni, sem er annaðhvort ófrísk, í barneignarhugleiðingum eða nýorðin móðir. En augljóslega er ekki við öðru að búast þegar bíómynd er í rauninni byggð á þekktustu handbók Bandaríkjanna sem fjallar um meðgöngu og stigum hennar frá A-Ö. Persónurnar og söguþræðirnir eru allir frumsamdir, eða teknir af lagernum öllu heldur.

Hollywood-glamúrgeislinn skín samt svo skært að tenging meðaláhorfandans við myndina verður ekkert rosalega sterk. Það hefði verið glæsilega kjörkuð ákvörðun ef myndin hefði þorað að fara Contagion-leiðina og passa upp á það að fallega og fræga fólkið sé alls ekki of fallegt í aðstæðum sem bjóða ekki alltaf upp á það í raunsæjum heimi. Skiljanlega er fátt eðlilegra en ólétt kona sem lítur ekki út eins og úrklippa úr tímariti. Ef ég væri barnshafandi kvenmaður myndi ég glaðlega þiggja það að líta út eins og Elizabeth Banks á sínum versta degi í þessari mynd, þar sem hún á að vera sjúskaðasta konan. Það eina sem gerir hana „óaðlaðandi“ er ógreidda hárið hennar. Hollywood tilgerðin sættir sig ekki að sjálfsögðu við annað.

Banks er reyndar í ansi góðum gír hérna. Leikkonan er yfirleitt alltaf hress og með hugann að því sem hún er að gera og af helstu leikkonum myndarinnar er hún langskemmtilegust, að utanskildri hinni yndisfríðu Brooklyn Decker, sem stelur tvímælalaust öllum senum sem Banks er ekki í. Annars eru flestir í hressari kantinum, frá mönnum á borð við Chris Rock, Rodrigo Santoro og Dennis Quaid (sem fær heiðurinn á því að stafa út skilaboð myndarinnar) til J-Lo og Önnu Kendrick. Eftir ógleðina sem ég upplifði eftir The Back-Up Plan var ég skíthræddur um að ganga í gegnum aðra óléttumynd með fröken Lopez, en hún ber sig ágætlega og hefur örugglega ekki leikið í betri mynd en þessari síðan… hvað… Out of Sight??

Helst vil ég sleppa því að dæla huggulegum orðum í Cameron Diaz að þessu sinni þar sem hún er alveg jafnpirrandi hér og í Knight and Day. Síðan, af einhverjum ástæðum, fáum við einhverjar örfáar leifar af Bridesmaids leikurum. Sennilega hefur afgangurinn (semsagt þeir leikarar sem gerðu eitthvað af viti í þeirri mynd) verið of upptekinn við að gera Friends with Kids. Hvílík kaldhæðni í tengingunni á þessu öllu saman. Mín vegna hefði þessi Rebel Wilson alveg mátt tóna sig niður. Hún reynir alveg hryllilega stíft að vera fyndin með því að gera það sem hún er þekktust fyrir. Gengur ekki alltaf. Allt með pabbagrúppunni bætti þó töluvert upp fyrir það.

Þessi mynd er ekki framleidd til að vera djúp, hnyttin og minnisstæð súpa af dæmisögum sem gefa fólki í réttum aðstæðum brjálað raunveruleikaspark. Hún væri eflaust betri þannig, því mynd eins og þessi ætti að vera vönduð, heillandi, fyndin og lógísk upp að ásættanlegu marki svo verðandi/nýbakaðar mæður geti haft hana við hendi til að bæði læra eitthvað og skemmta sér á sama tíma. Í staðinn er hún bara þessi dæmigerða froða sem þykist vera metnaðarfyllri en hún er.

Það er að mínu mati ómögulegt að hugsa ekki til sambærilegra mynda; sumsé dramatískra „ensemble“ gamanmynda – sem oftast snúast í kringum eitt lykilþema – þar sem fullt af frægum andlitum fylla upp í hlutverkin svo þú þekkir persónurnar betur.  Love Actually hafði reyndar fullt að segja um ástina í allri sinni dýrð, eins og flækjurnar og fjölbreytnina. Hún var sykruð út í gegn en einnig mátulega beisk og trúverðug. He’s Just Not That Into You tók sambandsheiminn í gegn á sniðugan máta. Hún var kannski troðin og heldur óeftirminnileg en stefndi þó alveg í réttu átt.

Hvort sem maður hefur gengið í gegnum barneignir eður ei (sem undirritaður hefur gert) er ekkert verið að segja manni neitt nýtt og það getur oft verið óþolandi hversu ódýrar leiðir hún fer til þess að vera dramatísk og fyndin. En ef þú ert hins vegar syndandi í hormónum tel ég alls ekki ólíklegt að þú gargir eða vælir af hlátri. Eða vælir, punktur. Það lá við að ég gæti séð „gráttu núna“ skiltið sem flassar ósýnilega framan í andlitið á manni þegar grínið hættir og alvarleikinn byrjar. Ég væri samt að ljúga ef ég myndi ekki segja að eitt atriði hafi tosað afar lauslega í þær hjartarætur sem ég er með. Ótrúlega mikið verið að manipúlera, en lúmskt öflugt engu að síður.

Það er samt ekki séns að maður eigi eftir að muna nöfnin á persónunum eftir myndina og ekki einu sinni á meðan hún er í gangi. Oftast tengdi ég yfirleitt bara nöfnin við andlit leikaranna. Annars verður sykraða handritinu aldrei beinlínis hrósað fyrir sláandi dýpt í persónusköpuninni, en slíkt markmið var hvort eð er aldrei í spilunum. Alveg eins og það er hvergi í spilunum að fara út í fullmikið raunsæi. Á handritsstiginu er það samt sem áður sagan hjá Önnu Kendrick sem kemur einna verst út úr myndinni. Það eru góð móment í henni (og eitt reyndar óhuggulega gott) en flýtta og klúðurslega rómantíkin bitnar heilmikið á sögunni hennar í seinni hlutanum, þegar hún fær næstum því ekkert til að gera annað en að láta vita af sér af og til. Annaðhvort hefði átt að troða meira efni inn í þennan kafla eða bara sleppa unglingarómantíkinni alveg. Myndin græðir allavega voða lítið á svona haltrandi söguþræði.

What to Expect When You’re Expecting vekur upp tilfinningar eins og maður sé að horfa á nokkra ágæta en auðgleymda gamanþætti á meðan lengdinni stendur. Þessa sem eru með þennan sviðsetta og tilgerðarlega fíling. Það eina sem vantar er bara dósahláturinn. Þessi mynd er samt 120% typpavarin og ef þú ert stelpa/kona/kelling /megamútta er engin ástæða fyrir þig til að taka mark á mér. Þið drengirnir skuluð samt krossleggja fætur og hafa varann á.


(6/10)