Sin City 2 loksins staðfest!

Eftir margra ára bið, endalaus áform, og linnulausar tilkynningar um að það muni ‘hugsanlega’ gerast, hefur framhaldið af hinni lofuðu og geysivinsælu Sin City loksins verið staðfest og er nú í forvinnslu. Hún hefur öðlast titilinn Frank Miller’s Sin City: A Dame To Kill For, en myndin verður byggð á samnefndri myndasögu. Robert Rodriguez snýr aftur sem leikstjóri og framleiðandi ásamt Frank Miller, höfundi myndasagnanna. Í tilkynningunni lofaði Rodriguez að „[myndin] verður biðinnar virði“

Leikaravalið hefst í næstu viku og er búist við að margir úr þeirri fyrstu munu snúa aftur. Handrit myndarinnar er skrifað af þeim Frank Miller og William Monahan, sem hlaut óskarsverðlaunin fyrir The Departed og skrifaði einnig handritið fyrir Kingdom of Heaven. Myndin verður framleidd og gefin út af fyrirtækinu AR Films sem munu einnig gefa út annað Rodriguez framhald, Machete Kills.

Það er gott sjá Rodriguez tækla Sin City aftur eftir fjölmargar misheppnaðar fjölskyldumyndir, sæmilegt ruslfóður og eina óvænta hasarmynd. Frank Miller hefur vonandi lært af mistökum The Spirit, og verður mjög spennandi að sjá hvernig afraksturinn mun koma út. Eru lesendur spenntir að myndin sé loks farin í framleiðslu eða eru margir búnir að missa áhugann?