Verður Ben Kingsley illmennið í Iron man 3 ?

Sir Ben Kingsley stendur nú í samningaviðræðum við Marvel um að leika illmennið í Iron Man 3, en tökur á myndinni hefjast í næsta mánuði. Kingsley er mikils metinn leikari, en hann var aðlaður fyrir störf sín á leiklistarsviðinu árið 2001.

Orðið á götunni er að hlutverkið sem um ræðir sé ekki fyrir erkióvin Tony Stark, Mandarin, heldur annað illmenni sem dreifir vírus til saklausra borgara í gegnum nanobot-tækni. Þó hefur ekki verið útilokað að fleiri en eitt illmenni verði í myndinni.

Iron Man 3 verður byggð lauslega á Extremis myndasöguseríunni sem kom út árið 2006. Sú sería var einnig notuð í fyrstu Iron Man myndinni þegar grunnur fyrir söguþráðinn var kynntur ásamt nanobot-tækninni.

Shane Black (Kiss Kiss Bang Bang (woohoo!)) tekur við leikstjórastarfinu af Jon Favreau. Robert Downey Jr., Scarlett Johansson, Gwyneth Paltrow og Don Cheadle snúa öll aftur fyrir þriðju myndina. Iron Man 3 verður frumsýnd 3.maí 2013.

Mér fannst Iron Man 1 og 2 frábærar myndir (já, IM2 líka) og ég get ekki beðið eftir IM3. Hins vegar hefur álit mitt á Kingsley minnkað um ca 98% eftir frammistöðu hans í The Guru, þeirri ömurlegu mynd. Maðurinn er ‘Sir’, í guðanna bænum. Ófyrirgefanlegt.

Stikk: